Handbolti

Brand og Baur lofa Dag í hástert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
Heiner Brand, fyrrum landsliðsþjálfari Þjóðverja og Dagur Sigurðsson, núverandi þjálfari liðsins.
Heiner Brand, fyrrum landsliðsþjálfari Þjóðverja og Dagur Sigurðsson, núverandi þjálfari liðsins. Vísir/Getty
Gengi þýska handboltalandsliðsins hefur komið mörgum í heimalandinu á óvart enda bjuggust fáir við því að Þýskaland myndi fara langt á mótinu.

Þjóðverjar hlutu óvænt keppnisrétt á mótinu og voru settir í neðsta styrkleikaflokk. Þeir lentu svo í ógnarsterkum riðli með Danmörku, Póllandi, Rússlandi, Argentínu og Sádí-Arabíu.

Dagur Sigurðsson stýrir landsliði Þýskalands en undir hans stjórn náði Þýskaland að vinna sinn riðil og svo stórsigur á Egyptalandi í 16-liða úrslitum keppninnar. Liðið mætir heimamönnum í Katar í 8-liða úrslitunum í dag.

„Það geislar af honum gríðarlega mikil yfirvegun. Hver einasta ákvörðun sem hann hefur tekið hefur reynst rétt og gengið upp. Leikmenn treysta honum fyllilega og hafa trú á öllu því sem hann gerir. Það þurfa menn að vinna sér inn,“ sagði Markus Baur, fyrrum leikstjórnandi þýska landsliðsins, við þýska fjölmiðla.

Aðeins eru fimm mánuðir síðan að Dagur tók við þýska landsliðinu en á milli leikja þess hefur hann haldið áfram að stýra Füchse Berlin. Hann lætur af því starfi í sumar.

„Landsliðið hefur þrisvar komið saman síðan að Dagur tók við. Árangur þess er ekki síst merkilegur í því ljósi,“ sagði Heiner Brand, fyrrum landsliðsþjálfari. Brand gerði Þýskaland að heimsmeisturum 2007 en þá lék Baur með liðinu.

Þýskaland hefur þótt spila skynsamlegan handbolta á HM í Katar en Brand segir að það sé þjálfaranum að þakka.

„Við því mátti búast við af Degi Sigurðssyni. Hann hefur gott skynvit á því hvað leikmenn hans hafa fram að færa á vellinum,“ bætti Brand við.


Tengdar fréttir

Dagur gefur mömmu skýrslu eftir hvern leik

Þýskaland mætir í dag heimamönnum í Katar í 8-liða úrslitum á HM í handbolta. Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafa spilað frábærlega á mótinu og fóru létt með Egyptaland í 16-liða úrslitunum.

Carsten Lichtlein: Dagur heldur ekki langar ræður

Carsten Lichtlein stóð í marki Þjóðverja í sigri þeirra á Egyptum í 16 liða úrslitum. Þessi rúmlega tveggja metra kappi var stórkostlegur í leiknum, varði 20 af þeim 36 skotum sem hann fékk á sig. Þrjú af fimm vítaköstum Egypta höfnuðu í skrokknum á Lichtlein sem spilar með Gummersbach í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×