Viðskipti innlent

Björgólfur vill rannsókn á sölu Landsbankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson var einn af kjölfestufjárfestum í Landsbankanum.
Björgólfur Thor Björgólfsson var einn af kjölfestufjárfestum í Landsbankanum. Vísir/GVA
„Ég hef alltaf verið hlynntur ítarlegri rannsókn á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans 2002 og 2003 og ítreka það nú,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann var hluti af Samson hópnum sem keypti kjölfestuhlut í Landsbankanum á árunum 2002 og 2003. 

„Það er löngu tímabært að sú saga verði öll sögð, svo þeir beri skömmina sem eiga hana og aðrir fái uppreist æru. Og tímabært að stjórnmálamenn standi við yfirlýsingar sínar um gagnsæi. Ég er reiðubúinn að mæta fyrir hvaða nefnd sem er og fara ítarlega yfir einkavæðingu Landsbankans,“ bætir Björgólfur við. 

Alþingi samþykkti þingsályktun árið 2012 um að rannsaka skuli sölu Búnaðarbankans, Fjárfestingabanka atvinnulífsins og Landsbankans. Í gær skilaði rannsóknarnefnd um sölu á Búnaðarbankanum skýrslu sinni þar sem fram kemur að S-hópurinn svokallaði hafi beitt blekkingum þegar hópurinn keypti kjölfestuhlut í bankanum. 

Björgólfur er harðorður í garð S-hópsins sem hann kallar svikahópinn.

„Svika-hópurinn þurfti samt að sýna fram á, að hann styddist við öflugan, erlendan banka, til að eiga von til þess að ríkið vildi selja þessum samansafni lukkuriddara ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Lengi vel létu þeir eins og franski stórbankinn Société Général væri með þeim í kaupunum, en að lokum reyndist stóri, erlendi bankinn vera lítill, þýskur einkabanki sem enginn þekkti til. Og sá banki bara ómerkilegur leppur Ólafs Ólafssonar,“ segir Björgólfur. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×