Erlent

Bjóða skemmtiferðaskip undir flóttafólk

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Flóttamenn hafa þurft að sofa undir berum himni í Malmö í Svíþjóð.
Flóttamenn hafa þurft að sofa undir berum himni í Malmö í Svíþjóð. NORDICPHOTOS/AFP
Skemmtiferðaskip gætu orðið bústaðir flóttamanna í Svíþjóð fyrir jól. Margar útgerðir hafa haft samband við sænsku útlendingastofnunina og boðið skip sín til notkunar. Á vef sænska blaðsins Aftonbladet er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að hugsunin sé að skipin verði dvalarstaður hælisleitenda þar til umsókn þeirra hefur verið afgreidd en ferlið tekur oft rúmlega eitt ár.

Útlendingastofnunin vonast einnig til að geta nýtt bústaðapalla, eins og tengdir eru olíuborpöllum, sem dvalarstaði fyrir flóttamenn.

Útlendingastofnunin hafði samband við sænsku þjóðkirkjuna og bað um hjálp. Um 30 manns höfðu þurft að sofa undir berum himni í nokkrar nætur í Malmö. Um 80 manns hafa sofið á kirkjubekkjunum í St. Jóhannesarkirkju í Malmö á hverri nóttu frá því um liðna helgi.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, hefur boðað hertar reglur um móttöku flóttamanna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×