Viðskipti innlent

Bjarni Ben: Afnám fjármagnshafta tvímælalaust á áætlun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Anton Brink
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir afnám fjármagnshafta tvímælalaust á áætlun þrátt fyrir dræma þátttöku í aflandskrónuútboðinu sem fór fram fyrr í mánuðinum. „Það er alveg tvímælalaust þannig, nú snúum við okkur að innlenda markaðnum, heimilinum, fyrirtækjunum og lífeyrissjóðum. Við höfum með nýlegri lagasetningu búið í haginn fyrir frekari skref sem verða tekin síðar á þessu ári," sagði Bjarni í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Í nýafstöðnu aflandskrónuútboði Seðlabanka Íslands nam fjárhæð samþykktra tilboða rúmlega 72 milljörðum króna af tæplega 178 milljörðum króna sem boðnar voru í útboðinu.

Seðlabankinn ákvað að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra í útboðinu. Alls bárust 1.646 tilboð og var 1.619 tilboðum tekið. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnkar um rúmlega 47 milljarða í kjölfar útboðsins.

Sjá einnig:Yfir 1600 tilboð bárust í gjaldeyrisútboði Seðlabankans

„Ég held að það sé rétt að skoða þetta útboð sem útboð sem að fylgir yfir tuttugu öðrum útboðum sem við höfum haldið á undanförnum árum og niðurstaðan af þeim á heildina litið er að við höfum lækkað snjóhengjuna úr 40 prósent af landsframleiðslu í 12 prósent,“ sagði Bjarni.

Bjarni segir að fleiri tóku þátt en gert hefði verið ráð fyrir.

„Eftir sitja nokkrir stórir aðilar og það að þeir komi ekki til þátttöku í útboðinu að þessu sinni má líta á sem eins konar yfirlýsingu um töluverða trú á íslensku efnahagslífi inn í framtíðina,“ sagði Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×