Erlent

Bjargað af slökkviliði úr tanki kamars

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkvilið Drammen birti þessa mynd á Facebooksíðu sinni, þar sem sjá má Larsen reyna að komast upp í gegnum klósettið.
Slökkvilið Drammen birti þessa mynd á Facebooksíðu sinni, þar sem sjá má Larsen reyna að komast upp í gegnum klósettið.
Norðmaðurinn Cato Berntsen Larsen ákvað að skríða ofan í tank kamars á eftir síma sem vinur hans hafði misst. Þar sat hann fastur í rúma klukkustund og náði úrgangurinn honum upp að lærum. Slökkviliðsmenn borgarinnar Drammen þurftu að saga klósett kamarsins í sundur til að draga hann upp aftur.

Í samtali við VG sagði Larsen að hann hefði farið í óðagot nánast strax og hann stökk ofan í tankinn. Um er að ræða almenningskamar sem var komið upp árið 1990. Hann er ekki tengdur við skolpkerfi Drammen, heldur við stóran tankur sem er tæmdur einu sinni á ári.

„Þetta var helvíti ógeðslegt. Það versta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Það voru dýr þarna niðri,“ sagði Larsen. Hann sagðist aldrei ætla að nota kamar aftur.

Larsen tókst þó að bjarga símanum.

Larsen sagði einnig að hann ætti erfitt með þröng rými og að það hefði verið mjög erfitt að hreyfa sig þarna niðri. Eftir að honum hafði verið bjargað var hann fluttur á sjúkrahús þar sem honum voru gefin sýklalyf og sárin sem hann hlaut þegar vinir hans reyndu að toga hann upp í gegnum klósettið voru hreinsuð.

Starfsmenn Drammen segja að þetta sé í fyrsta sinn sem einhver fari ofan í tankinn frá því að kamrinum var komið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×