Innlent

Birgitta segir Ólaf Ragnar hafa setið alltof lengi á forsetastóli

Jakob Bjarnar skrifar
Kapteinn Pírata vill leggja forsetaembættið af og telur að Ólafur Ragnar eigi að hætta ala á sundrungu og ótta meðal þjóðarinnar.
Kapteinn Pírata vill leggja forsetaembættið af og telur að Ólafur Ragnar eigi að hætta ala á sundrungu og ótta meðal þjóðarinnar. visir/valli/andri marino
Bigitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segir flokkinn ekki hafa mótað stefnu í málefnum þeim sem snúa að embætti forseta Íslands, þar eru skiptar skoðanir en hennar skoðun er sú að leggja beri embættið af.

„Persónulega finnst mér óþarfi að vera með forseta. Betra væri ef málskotsrétturinn væri þjóðarinnar.“

Hvorki Ólaf né Þorgrím, takk

Píratar hafa lagt ríka áherslu á stjórnarskrármálið svokallað; að stefna beri að breytingum á stjórnarskrá þar sem til dæmis kveðið væri skýrt á um auðlindir í þjóðareign. Birgitta segir ekkert launungarmál að hún telji þar Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands vera Þránd í götu.

Í gær greindi Vísir frá því að fyrsti forsetaframbjóðandinn væri búinn að gefa sig fram og er sá Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og fyrirlesari. Vísir spurði Birgittu hvort hún myndi frekar kjósa Ólaf Ragnar eða Þorgrím Þráinsson, ef þessir tveir kostir væru þeir einu í boði?

„Mér finnst Ólafur hafa setið á forsetastól allt of lengi. Ég myndi kjósa hvorugan. Hef annan í huga sem ég myndi vilja fá í framboð,“ segir Birgitta.

Óæskileg afskiptasemi forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekkert gefið út um það enn hvort hann hyggist sækjast eftir endurkjöri en framganga hans í kjölfar árásanna í París hefur vakið athygli; forsetinn hefur talað um að nú dugi ekki barnaskapur og einfeldni og ómögulegt að skilja hann öðru vísi en svo að herða beri tökin.

„Mér finnst Ólafur Ragnar eigi að hætta að ala á ótta og sundrungu meðal þjóðarinnar. Við erum með bæði innan- og utanríkisráðherra sem eru vel til þess bær að svara spurningum um öryggismál þjóðarinnar innra sem ytra enda fara þau með þá málaflokka en ekki forseti vor. Þá ætti hann að hætta að reyna að hafa áhrif á störf þingsins nema að þjóðin biðji hann sérstaklega um að nýta sér málskotsréttinn,“ segir kapteinn Pírata um framgöngu forsetans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×