Viðskipti innlent

Bílaleiga fyrir stuttar ferðir í Höfðatorgi

Ingvar Haraldsson skrifar
Ingveldur Einarsdóttir segir að verkefnið verði hugsanlega útvíkkað með fleiri bílum sem leigðir verði út fyrir aðra en starfsfólk Höfðatorgs.
Ingveldur Einarsdóttir segir að verkefnið verði hugsanlega útvíkkað með fleiri bílum sem leigðir verði út fyrir aðra en starfsfólk Höfðatorgs. fréttablaðið/gva
Avis hyggst opna bílaleigu fyrir styttri ferðir, svokallaða Snattbíla, í bílakjallaranum í Höfðatorgi í kringum næstu mánaðamót.

Starfsfólk Höfðatorgs mun geta leigt bílana út. Það verða tíu bílar til að byrja með en í framhaldinu verður verkefnið hugsanlega útvíkkað að sögn Ingigerðar Einarsdóttur, markaðs- og þjónustustjóra Avis. Bílum verði þá fjölgað og þeir leigðir út fyrir aðra en starfsfólk hússins.

Nú er unnið að því að leggja lokahönd á pantanakerfi fyrir þessa leigu. „Fólk þarf að vera skráð inn sem notandi hjá okkur. Þá getur það séð hvenær bíll er laus og bókar svo eftir því hvað þarf, klukkustund, tvær klukkustundir eða heilan dag. Síðan þarf það að skila bílnum aftur á sama stað og hann er tekinn,“ segir Ingigerður en viðskiptavinir munu opna og loka bílunum með snjallsímum.

Reykjavíkurborg er fjölmennasti vinnustaðurinn í Höfðatorgi en um 400 manns starfa í byggingunni. Reykjavíkurborg hefur sjálf verið með tilraunverkefni með bílaleigu fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar í Höfðatorgi og í Ráðhúsinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
„Við erum mjög spennt fyrir þessari þróun,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. „Þetta mun auðvelda fólki að koma til vinnu með öðruvísi ferðamáta en eigin bíl,“ segir Dagur og bætir við að með þessu verði hægt að nýta betur bílakjallarann við Höfðatorg og aðra staði þar sem lítið er af lausum bílastæðum. 



Reykjavíkurborg er með til skoðunar hvernig koma megi á fót fleiri slíkum bílaleigum en starfshópur hjá Reykjavíkurborg mun skila tillögum þess efnis á næstu vikum.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×