Viðskipti innlent

Bertrand Kan vill taka sæti í stjórn Símans

jón hákon halldórsson skrifar
Bertrand Kan kynntist Símanum fyrst í einkavæðingarferlinu.
Bertrand Kan kynntist Símanum fyrst í einkavæðingarferlinu.
„Ef ég yrði beðinn um það þá myndi ég sannarlega hafa áhuga,“ segir fjárfestirinn Bertrand Kan, spurður hvort hann hafi hug á að taka sæti í stjórn Símans. Kan er í forsvari fyrir félagið L1088 ehf. Það er félag sem keypti fimm prósenta hlut í Símanum í aðdraganda útboðs.

Kan hefur fylgst með Símanum frá árinu 2004, þegar hann var helsti ráðgjafi Morgan Stanley í að einkavæða fyrirtækið. Um nokkurra áratuga skeið hafa fjárfestingar í fjarskipta-, fjölmiðla- og tæknifyrirtækjum verið hans sérsvið. Hann situr meðal annars í stjórn spænska fjarskiptafélagsins Cellnex. Hann segir Símann ekki vera stærsta fyrirtækið sem hann hafi fjárfest í. En stærð Símans hafi sína kosti. „Stóru fyrirtækin eru alltaf svolítið eins og stór olíuskip. Það er erfitt að breyta um kúrs. Síminn er miklu auðstýranlegri,“ segir Kan.

Kan segir að Síminn starfi líka á breiðari grundvelli en mörg önnur fyrirtæki. „Það hefur starfað á fjölmiðlamarkaði um nokkurra ára skeið. Það hefur líka verið sneggra en mörg önnur fyrirtæki að tileinka sér starfsemi á stafræna markaðnum og með tónlistarveitum,“ segir Kan. Hjá Símanum átti menn sig á þeim fjölmörgu tækifærum sem felist í internetinu og það líki honum.

Kan segir að það hafi verið hugmynd stjórnenda Símans að hann kæmi að fjárfestingu í fyrirtækinu með þeim. „Mér hefur líkað vel við Símann í þau rúmu tíu ár sem ég hef þekkt fyrirtækið. Ég sagðist því vera áhugasamur og þannig byrjaði það,“ segir Kan. Hann vill ekki greina frá því hvað hann persónulega keypti stóran hlut. „Mér finnst það ekki skipta máli. Ég er ekki stærsti hluthafinn í hópnum og ekki sá minnsti. Ég er í miðjunni og er hluti af hópnum.“

Aðdragandinn að útboðinu hefur verið gagnrýndur harðlega. Bæði vegna þess að fjárfestahópurinn sem Kan tilheyrir keypti á genginu 2,5 á hlut og einnig þar sem bankinn seldi vildarviðskiptavinum sínum hlut á 2,8 fyrir útboðið. Vegið meðalgengi í útboðinu var hins vegar 3,33 á hlut. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, er einn þeirra sem hafa gagnrýnt söluferlið og kallað það klúður.

Kan segist hafa orðið var við gagnrýnina. Hann bendir á að hópurinn hafi samið um hlutinn fyrir síðasta sumar. Ómögulegt hafi verið að sjá hvernig útboðið myndi fara. „Þótt við hefðum haft væntingar um það hvernig útboðið færi höfðum við enga vissu. Þetta varð niðurstaðan,“ segir Kan. Í öðru lagi lúti hlutabréfin sem fjárfestahópurinn keypti ekki sömu leikreglum og þau sem voru seld í útboðinu.

„Vegna þess að hluti samningsins var að við myndum ekki selja þau fyrr en 2017. Það er gott að sjá að bréfin hafa hækkað í verði en hagnaðurinn er aðeins á blaði og markaðir hreyfast upp á við og niður,“ segir Kan. Það sé því ekki hægt að segja fyrr en árið 2017 hversu góð fjárfestingin var. Fólk sem keypti í útboðinu geti hins vegar keypt og selt hvenær sem það vill. „Ég vil gjarnan sjá að fólk beri saman epli og epli. Sölubannið kemur hins vegar ekki illa við mig þar sem ég sé bréfin sem langtímafjárfestingu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×