Erlent

Belgískir Vallónar stöðva fríverslunarsamning ESB og Kanada

Atli Ísleifsson skrifar
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, fundaði með fulltrúum héraðsstjórna fyrr í dag.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, fundaði með fulltrúum héraðsstjórna fyrr í dag. Vísir/AFP
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, segir að belgísk stjórnvöld geti ekki undirritað fríverslunarsamning ESB og Kanada vegna andstöðu stjórnvalda í einu héraða landsins, Vallóníu.

Vonir stóðu til að fulltrúar ESB og kanadískra stjórnvalda myndu undirrita Ceta-samninginn svokallaða á fimmtudag.

„Við erum ekki í aðstöðu til að undirrita Ceta,“ sagði Michel eftir viðræður hans og fulltrúa héraðsstjórna í landinu fyrr í dag.

Í frétt BBC segir að um sé að ræða víðtækasta fríverslunarsamning sem ESB hafi gert við ríki. Hann hefur verið um sjö ár í undirbúningi.

Vallónar setja sig helst upp á móti ákvæðum í samningnum sem snúa að umhverfismálum, atvinnu- og neytetendamálum.

Stjórnvöld í öllum aðildarríkjum ESB eru fylgjandi undirritun samningsins en Vallónar ákváðu að nýta sér rétt sinn, sem finna má í stjórnarskrá Belgíu, um að stöðva undirritun Belga.

Undirritun allra aðildarríkja ESB þarf til að samningurinn geti tekið gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×