Innlent

Barnaleg og þrjósk umræða um hvalveiðar

Bjarki Ármannsson skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Vísir/GVA
„Ég myndi halda að þessi þingsályktunartillaga fari í gegn vegna þess að þetta varðar bara það að komast að því hvort þetta borgi sig eða ekki,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Helgi Hrafn er einn flutningsmanna þingsályktunartillögu um að fela fjármálaráðherra að láta meta hagsmuni Íslendinga vegna hvalveiða í íslenskri lögsögu.

Matið ætti að vera óháð og kanna verðmæti útflutnings á hvalkjöti, kostnað við kynningu af hálfu stjórnvalda vegna hvalveiðistefnunnar og álit um áhrif stefnunnar á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

„Þetta er bara einn hluti af umræðunni,“ segir Helgi Hrafn. „Siðferðislegi hlutinn, hvort það sé siðferðislegt að veiða hvali, er óháð þessari tillögu og annar hluti af umræðunni. Það hver okkar réttur sem þjóð er, er einnig annar hluti af umræðunni. En það hlýtur að skipta höfuðmáli í þessari umræðu hverjar nákvæmlega tölurnar eru. Og hverjar staðreyndirnar eru gagnvart þessu, hvort þetta borgi sig.“

Hvalveiðar Íslendinga hafi lengi verið umdeildar og bakað okkur óvinsældir nokkurra erlendra ríkja, einna helst Bandaríkjanna. Skemmst er að minnast þess að í byrjun apríl sendi Barack Obama Bandaríkjaforseti frá sér minnisblað þar sem hann gagnrýndi harðlega veiðar Íslendinga á langreyði og sagði þær stefna tegundinni í voða. Sagðist hann vilja endurskoða samstarf ríkjanna tveggja í ljósi hvalveiðanna.

„Við hljótum að meta samskipti okkar við önnur ríki,“ segir Helgi Hrafn. „Og þegar sjálfur forseti Bandaríkjanna gerir veður yfir þessu, þá hefur það áhrif á okkar hagsmuni hvort sem okkur líkar það betur eða verr.“

Helgi Hrafn segir að þjóðarstolt og þrjóska Íslendinga eigi það til að þvælast fyrir umræðunni um hvalveiðar.

„Það er oft svolítið barnaleg orðræða sem á sér stað um hvalveiðar þegar það kemur að samskiptum okkar við önnur ríki. Það er svolítið fljótt í þrjóskuna og þjóðarstoltið og allt það.“


Tengdar fréttir

Bjarni svarar Bandaríkja-mönnum fullum hálsi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir Bandaríkjamenn ekki hafa nein efni á að segja öðrum fyrir í siðferðilegum álitaefnum og virðist ekki vilja að gefa tommu eftir hvað varðar hvalveiðar.

Íslendingar verði að taka hvalveiðar til endurskoðunar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að Íslendingar verði að taka hvalveiðar til endurskoðunar og meta hver ávinningur þjóðarbúsins af þeim er í raun og veru. Hún segir samanburð fjármálaráðherra á hvalveiðum Íslendinga og dauðarefsingum í Bandaríkjunum ekki eiga erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×