Innlent

Barn hlaut annars stigs brunasár í slysi við Geysi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndbandið sýnir glöggt hvernig vatnið skvettist yfir fólkið og viðbrögð þeirra eru auðgreinanleg.
Myndbandið sýnir glöggt hvernig vatnið skvettist yfir fólkið og viðbrögð þeirra eru auðgreinanleg. myndir/úr myndbandi péturs
Slys varð við Strokk á Geysissvæðinu í Haukadal síðastliðin mánudag. Tvö börn hlutu fyrsta og annars stigs brunasár á fótum í kjölfar þess að vindhviða feykti vatni úr hvernum yfir þau. Börnin voru á ferð um landið með fjölskyldu sinni en fjölskyldan er búsett í Noregi.

Pétur Reynisson, faðir barnanna, var með myndavélina á lofti og náði atvikinu á myndband en myndskeiðið má sjá hér að neðan. Börnin voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur þar sem meiðsl þeirra voru meðhöndluð.

Sjá einnig: Slys á Geysissvæðinu

„Ég vil þakka af alhug öllum þeim sem að brugðust gríðralega hratt við atvikinu. Starfsmönnum í ferðamannabúðinni, viðbragðsteymi sem var á svæðinu, sjúkrafólki frá Selfossi sem kom fljótt á staðinn og einnig þyrluteymi frá Landhelgisgæslunnar sem var þarna í nágrenninu. Þeir tóku ákvörðun um að lenda, kanna umfang atviksins og flugu með börnin okkar á Landspítalann,“ segir Pétur.





„Sem betur fer gerist þetta mjög sjaldan,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélagsins Geysir ehf. Í fyrra hóf félagið gjaldtöku við goshverinn en lögbann var lagt á hana af sýslumanni. Sú niðurstaða var staðfest í héraðsdómi.

„Við höfum lagt áherslu á það að við viljum bæta umgjörð og öryggismál í samræmi við aukinn fjölda gesta sem heimsækir svæðið. Minnihlutaeigandinn, það er ríkið, er ekki sammála okkur og því fer sem fer. Meðan svona er staðið að málum má búast við því að eitthvað berði út af. Meðan okkur er meinað að afla fjár er ekki hægt að standa betur að málunum,“ segir Garðar.

Sjá einnig: Gjaldtaka hafin við Geysi

Í síðasta mánuði var tilkynnt um að ríkisstjórnin hyggðist verja 850 milljónum til verkefna á fjölförnum ferðamannastöðum. Af þeim peningum renna fimmtíu milljónir til Geysissvæðisisins.

„Við vitum ekkert um þennan pening. Af okkar hálfu höfum við lengi kallað eftir samráði en það hefur ekki verið hlustað. Uppbyggingin sem við stefnum að kostar á bilinu sex til áttahundruð milljónir og það er líklega vanmat. Að auki verður að gera ráð fyrir árlegum kostnaði vegna fleiri starfa við að vakta svæðið betur og auka gæslu. Það er kostnaður sem nemur ábyggilega hátt í hundrað milljónum á ári,“ segir Garðar.

Sjá einnig: Staðfesti lögbann við gjaldtöku á Geysi

Hann bendir á að úthlutunin og kostnaðurinn við hana þýðir að hver landsmaður þurfi að greiða auka þúsundir króna á meðan ferðaþjónustufyrirtækin og ferðamennirnir greiði ekki eyri. „Hvað ætlum við að gera eftir nokkur ár þegar fjöldi ferðamanna á ári er orðinn tvær milljónir? Ætlum við að halda þessu áfram og skera niður í grunnþjónustu á móti?“

„Við höfum reynt að slást við meðeiganda okkar en hann beytir okkur einfaldlega því ofbeldi sem hann ræður yfir. Meðan menn ná ekki saman þá getum við lítið gert. Það að bæta öryggi gesta og umgjörð kostar fé sem við höfum ekki sem stendur,“ segir Garðar að lokum.


Tengdar fréttir

Áskilja sér rétt til að stöðva gjaldheimtu við Geysi

Lögmannsstofan Landslög hefur sent Landeigendafélags Geysis ehf. bréf þar sem fyrri mótmæli ríkisins og andstaða eru ítrekuð vegna ætlunar félagsins að innheimta gjald af ferðamönnum sem fara um svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×