Erlent

Bannað að reykja í bílnum með börnin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Samkvæmt rannsókn bresku lungnasamtakanna eru um 430.000 börn á viku farþegar í bíl þar sem reykt er og verða þannig fyrir óbeinum reykingum.
Samkvæmt rannsókn bresku lungnasamtakanna eru um 430.000 börn á viku farþegar í bíl þar sem reykt er og verða þannig fyrir óbeinum reykingum. Vísir/Getty
Bannað verður að reykja í bílum þar sem börn og unglingar yngri en 18 ára eru farþegar frá og með 1. október á næsta ári, samkvæmt reglugerð sem breska ríkisstjórnin hefur lagt fram.

Bannið nær til Englands og er forsætisráðherrann, David Cameron, á meðal þeirra sem styðja bannið.

Fyrr á þessu ári sagði hann að kominn væri tími til að leggja bann við reykingum í bílum þar sem börn eru farþegar svo vernda megi þau fyrir skaðlegum áhrifum óbeinna reykinga.

Samkvæmt rannsókn bresku lungnasamtakanna eru um 430.000 börn á viku farþegar í bíl þar sem reykt er og verða þannig fyrir óbeinum reykingum.

Ástralía og Suður-Afríka hafa sett svipaðar reglur  auk meirihluta ríkja bæði Kanada og Bandaríkjanna.

England er hins vegar aðeins annað landið í Evrópu til að banna reykingar í bílum þar sem börn eru farþegar, en Kýpur hefur áður sett á slíkt bann. Ríkisstjórn Wales hyggst þó einnig setja sambærilegar reglur auk þess sem Frakkland er að skoða að gera slíkt hið sama. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×