Viðskipti innlent

Bankaráð ekki upplýst um málskostnaðinn

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Katrín Olga Jóhannesdóttir kannast ekki við að bankaráð hafi á sínum tíma verið upplýst um að Seðlabankinn ætti að borga málskostnaðMás Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn bankanum vegna launamála. Katrín sat í bankaráði þegar málareksturinn átti sér stað.

Lára V. Júlíusdóttir fyrrverandi formaður bankaráðs sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að bankaráðið hafi á hverjum tíma verið upplýst um stöðu dómsmálsins og hafi haft öll tök á að fylgjast með málinu.

„Það er rétt að Lára upplýsti bankaráð um framganginn en það kom hins vegar aldrei inn á borð bankaráðs að fjalla um að Seðlabankinn ætti að borga málskostnað Más,“ segir Katrín Olga í samtali við Vísi.

Katrín Olga segir það hafa komið meðlimum bankaráðs spánskt fyrir sjónir þegar Már upphaflega ákvað að fara í mál við bankann vegna launa sinna, bankaráðið hafi verið vel upplýst um gang málsins sem slíks, hvernig vörn málsins væri upp sett en aldrei á þeim tíma hafi nein umræða átt sér stað um hver skyldi borga málskostnað Más.

„Það bara hvarflaði sjálfsagt aldrei að neinum í bankaráði að spyrja um þetta, þetta er það langsótt. Maður spyr sig hvort eðlilegt sé að sá aðili sem sótt er á greiði málskostnað þess sem sækir, þrátt fyrir að hann tapi málinu,“ segir Katrín Olga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×