Erlent

Bandaríkin borga vegginn og Mexíkó verður rukkað síðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, og Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, og Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Starfsmenn Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, hafa biðlað til leiðtoga repúblikana á þingi að útvega fé til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Verið er að skoða hvort hægt sé að byggja vegginn án nýrra laga með því að nýta lög frá 2006.

Með því að nýta gömul lög gætu Trump og repúblikanar, samkvæmt AP fréttaveitunni, komist hjá miklum deilum á þinginu og mögulegu málþófi og mótmælum demókrata. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin samkvæmt CNN.

Trump segir að Mexíkó verði seinna meir rukkað fyrir smíði veggsins. Hann hefur ítrekað haldið því fram að hann muni þvinga Mexíkó til að borga fyrir vegginn.

Stjórnvöld í Mexíkó segja það hins vegar ekki koma til greina og mögulegt er að reikningurinn mundi enda hjá skattgreiðendum í Bandaríkjunum. Talið er að verkið muni kosta um fjórtán milljarða dala, sem samsvara um 1.582 milljörðum króna. Landamæri ríkjanna eru rúmlega þrjú þúsund kílómetra löng.

Trump hefur einnig heitið því að veggurinn verði að mestu byggður úr steypu og stáli, en veggurinn var eitt helsta kosningaloforð hans. Hins vegar þykir ólíklegt að lögin sem um ræðir myndu gera stjórnvöldum kleift að byggja svo dýran vegg. Því er líklegra að girðing verði reist.

Trump hefur nú tjáð sig um fréttir morgunsins á Twitter, þar sem hann skammast yfir því að fjölmiðlar geri ekki grein fyrir því að Mexíkó verði rukkað síðar, eins og Trump stakk upp á í október. Bandaríkin muni borga fyrir smíðina á veggnum til að spara tíma. Svo verði Mexíkó þvingað til að borga.

Á kosningasíðu Trump má finna skjal þar sem farið er yfir hvernig Mexíkó gæti borgað fyrir veginn. Þar er til dæmis stungið upp á því að peningasendingar frá Bandaríkjunum til Mexíkó yrðu skattlagðar. Það er eftir að því yrði komið á að enginn gæti flutt peninga frá Bandaríkjunum án þess að staðfesta löglega veru sína í landinu.

Í tillögunum kemur einnig fram að hægt væri að þvinga Mexíkó til að borga með tollum og með því að koma í veg fyrir ferðalög Mexíkóa yfir landamærin.


Tengdar fréttir

10 hlutir sem Trump hefur sagst ætla að gera sem forseti

Donald Trump boðaði miklar breytingar í bandarískum þjóðfélagsmálum í kosningabaráttu sinni til forseta Bandaríkjanna. Hvort hann standi við loforð sín, eins og að hefja á ný vatnspyndingar eða banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×