Viðskipti innlent

Bændur uggandi yfir lækkuðu afurðaverði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þrjár afurðastöðvar hafa lækkað verð til bænda.
Þrjár afurðastöðvar hafa lækkað verð til bænda. vísir/stefán
„Afurðaverðið er komið og það lítur vægast illa út,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við Vísi.

Í vikunni tilkynntu Norðlenska, Sláturfélag Vopnfirðinga og Sláturhús SAH um lækkað afurðaverð til bænda. Lækkunin nemur yfirleitt um tíu prósentum á hvert kíló af lambakjöti en rúmlega þrjátíu prósentum á kjöt af fullorðnu fé. Hækkanirnar eru ýmist sagðar galnar eða glórulausar á heimasíðu Landssamtakanna. Aðrar afurðastöðvar, á borð við Sláturfélag Suðurlands og Fjallalamb, eiga enn eftir að gefa út sína afurðaverðskrá.

Þórarinn Ingi Pétursson er formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Um helgina fór fram formannafundur Landssamtakanna á Birkimel á Barðaströnd. Á fundinum var samþykkt yfirlýsing þar sem samtökin krefjast þess að sláturleyfishafar virði þau viðmiðunarverð sem sauðfjárbændur gáfu út í lok síðasta mánaðar. Umræddar lækkanir eru þvert á viðmiðunarkröfur sauðfjárbænda.

„Lækkunin er að ýmsu leyti skiljanleg þar sem rekstur afurðastöðvanna hefur gengið illa,“ segir Þórarinn. Rót vandans liggi á ýmsum stöðum. Þrátt fyrir að sala á lambakjöti hafi gengið ágætlega þá hefur orðið verðfall á ýmsum hliðarafurðum. Að auki hefur útflutningur gengið illa. Stærsti þátturinn sé hins vegar sá að verð á lambakjöti hafi lítið hækkað til neytandans.

Þórarinn segir að á undanförnum árum hafi vísitala neysluverðs hækkað talsvert en lambakjötið hafi ekki haldið í við þá þróun. Á sama tíma hefur hærra verð til bænda ekki fylgt auknum framleiðslukostnaði. 

„Menn hafa ekki komið út neinum hækkunum á markaði hérna innanlands og það er stærsti þáttur vandans,“ segir Þórarinn en hann telur að á íslensku markaði ríki fákeppni. „Við erum með of margar afurðastöðvar sem selja of fáum, stórum verslunarkeðjum. Það hlýtur að flokkast sem fákeppni þegar ein keðja er með um sextíu prósent af markaðnum. Þeir mega eiga það að þeir eru flinkir í sínum „bissness“.“

Rekstrarútlitið fyrir marga bændur hefur verið bjartara að mati formannsins. „Ég hef ekki enn heyrt í neinum sem er harðákveðinn í að hætta en einhverjir hafa nefnt það og eru að skoða sína stöðu,“ segir Þórarinn. Það sé hins vegar ljóst að haldi sambærileg þróun áfram til lengri tíma verði sjálfhætt hjá einhverjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×