Viðskipti innlent

Auka á tengsl Íslands við Íran

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gunnar Pálsson og Afkhami-Rad funduðu um samskipti þjóðanna tveggja.
Gunnar Pálsson og Afkhami-Rad funduðu um samskipti þjóðanna tveggja.
Ísland vill efla tengsl sín við Íran. Þetta kemur fram í frétt miðilsins Teheran Times. Þar segir að Gunnar Pálsson sendiherra hafi fundað með Valiollah Afkhami-Rad sem er forstöðumaður stofunar sem fer með utanríkisviðskipti Írans.

Í fréttinni er fjallað um fund þeirra tveggja og hugmyndir þeirra um á hvaða sviðum eigi að efla samskipti ríkjanna tveggja. Afkhami-Rad segir að íranska ríkisstjórnin vilji efla tengsl ríkisins við önnur lönd og er samstarfið við Ísland liður í því. Stefna Írans er að reyna að fækka viðskiptahindrunum og bæta samskipti og efla viðskipti við önnur ríki.

Afkhami-Rad telur að samstarf Íslands og Írans geti verið á mörgum sviðum; vinnu vísindamanna í fiskveiðum, byggingu vatnsfallsvirkjanna, aukinni notkun á grænni orku, jarðvísindum og samstarfi í eflingu ferðamannaiðnaðarins.

Í frétt Teheran Times kemur fram að Gunnar Pálsson bauð íranskri sendinefnd að koma hingað til lands í september, til þess að taka þátt í sjávarútvegssýningu sem fer þá fram í Reykjavík.

Í kínverska miðlinum Shanghai Daily er einnig fjallað um fundinn. Hann er settur í samhengi við áætlanir Írana að auka umsvif sín á alheimsmörkuðum. Tengsl Írans og Ítalíu eru rakin í þeirri frétt, en Ítalir hafa verið leiðandi í þeirri vinnu að auka viðskipti Evrópusambandsins við Íran. Viðskipti ríkjanna tveggja hafa aukist jafnt og þétt eftir árið 2002. Árið 2011 voru viðskipti ríkjanna metin á 9,7 milljarði Bandaríkjadala en fóru niður í 4,7 milljarði árið eftir vegna viðskiptaþvingana ESB á Íran. Nú er útlit fyrir bjartari tíma í viðskiptum ríkjanna.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×