Viðskipti innlent

Atvinnuþátttaka eykst í Reykjanesbæ

Atli Ísleifsson skrifar
Aðstoðarþegum hefur fækkað um 25 prósent milli apríl 2014 og apríl 2015.
Aðstoðarþegum hefur fækkað um 25 prósent milli apríl 2014 og apríl 2015. vísir/pjetur
Hera Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóra velferðarsviðs Reykjanesbæjar, segir að einstaklingum á fjárhagsaðstoð hjá bænum hafi fækkað verulega milli ára. Mun minni þörf sé fyrir fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ en verið hefur vegna aukinna atvinnutækifæra og vaxandi atvinnuþátttöku íbúa.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að stærsti hópur þess fólks sem njóti fjárhagsaðstoðar frá Reykjanesbæ sé vinnufært fólk sem sé dottið út úr atvinnuleysisbótakerfinu. Því hafi staðið til boða alls kyns vinnumarkaðsúrræði og námskeið í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Vinnumálastofnun og Fjölsmiðjuna.

Aðstoðarþegum hefur fækkað um 25 prósent milli apríl 2014 og apríl 2015. Á fyrstu árum eftir hrun voru á milli fjögur og fimm prósent íbúa átján ára og eldri á fjárhagsaðstoð en sú tala var 2,7 prósent í apríl síðastliðnum.

Ýmis úrræði

„Í þessum úrræðum er meðal annars sjálfsstyrking, styrking til starfa, atvinnuráðgjöf, gerð ferilsskrár og ýmis námskeið sem viðkomandi þarf að fara í gegnum til þess að ná árangri í atvinnuleit. Að undanförnu hefur vinnumarkaðurinn verið að taka við sér og störfum að fjölga, meðal annars í starfsemi tengdum Keflavíkurflugvelli og í ferðaþjónustu, svo sem bílaleigum. Það hefur verið mjög ánægjulegt að horfa á eftir því fólki, sem hefur nýtt sér þessi úrræði, út í atvinnulífið,“ segir Hera.

Auk þess hefur einstaklingum, sem eru óvinnufærir á fjárhagsaðstoð, staðið til boða starfsendurhæfing á vegum Virk. „Í starfsendurhæfingu fær fólk einstaklingsbundna þjónustu til að efla styrkleika sína og ná aftur færni til atvinnuþátttöku. Stuðningur fyrirtækja og stofnana í starfsendurhæfingu er ómetanlegur og mikilvægt að hafa aðgang að fjölbreytilegum úrræðum til stuðnings þessum einstaklingur,“ segir Hera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×