Innlent

Ásmundur sat hjá í atkvæðagreiðslu um afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson vísir/vilhelm
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat í gær hjá í atkvæðagreiðslu á Alþingi um breytingartillögu minnihlutans við fjárlög næsta árs varðandi afturvirkar hækkanir ellilífeyris-og örorkubóta.

 

Í seinustu viku sagðist Ásmundur ætla að styðja slíkar hækkanir en áður hafði hann greitt atkvæði gegn sambærilegri breytingatillögu við fjáraukalög þessa árs. Lýsti hann því á Facebook-síðu sinni að það hefðu verið mistök og kom hann í viðtal í Bítið á Bylgjunni í kjölfarið þar sem hann sagðist hafa verið mikill baráttumaður aldraðra og öryrkja, en hefði verið málaður upp sem vondi kallinn. Það liði honum illa með.

Ásmundur gerði grein fyrir atkvæði sínu á þingi í gær og ítrekaði þar skoðun sína um að kjör ellilífeyris-og örorkuþega þyrfti að bæta.

„Það er stóra verkefnið framundan. Ég get því ekki greitt atkvæði gegn þessari tillögu. Sanngjörn krafa um afturvirkar bætur næst ekki fram en ég er fullviss um það að ríkur vilji er til þess að bæta kjör þessa hóps og það höfum við reyndar ríkulega gert. Sá vilji er mikilvægur og ég treysti stjórn okkar í meirihlutanum til frekari sóknar í kjarabaráttu fyrir þessa hópa og markmiðið um 300 þúsunda króna lágmarkslaun árið 2018 í augsýn. Með þessa hagsmuni að leiðarljósi sit ég því hjá við þessa atkvæðagreiðslu,“ sagði Ásmundur á þingi í gærkvöldi.

Á eftir Ásmundi kom Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, í ræðustól og sagðist aðeins vilja minna þingmenn á að greiða atkvæði með sinni sannfæringu. Þá minnti hún einnig á drengskaparheit sem þingmenn sverja þegar þeir setjast á Alþingi. Ásta sagðist síðan styðja tillögu minnihlutans um afturvirkar hækkanir bóta.

Breytingatillagan um afturvirkar hækkanir bóta var felld í atkvæðagreiðslunni um fjárlögin í gær, líkt og allar aðrar breytingatillögur minnihlutans.


Tengdar fréttir

Stjórnarmeirihlutinn felldi kjarabætur aldraðra

Alþingi felldi sl. þriðjudag, 8. desember, tillögu minnihlutans á þingi um að aldraðir og öryrkjar fengju kjarabætur frá 1. maí sl. eins og launþegar hafa fengið. Stjórnarmeirihlutinn snerist gegn þessari sjálfsögðu tillögu og tillagan var felld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×