Viðskipti innlent

Ásgeir fær bónusinn viðurkenndan sem forgangskröfu

Ásgeir Jónsson.
Ásgeir Jónsson.
Hæstiréttur Íslands snéri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag þegar rétturinn úrskurðaði að Ásgeir Jónsson skyldi fá bónusgreiðslur sínar hjá Kaupþingi flokkaðar sem forgangskröfur.

Ásgeir starfaði sem forstöðumaður greiningadeildar Kaupþings frá árinu 2006 og gerði þá samninga um bónusgreiðslur en hann lét af störfum eftir hrunið.

Kaupþing neitaði að greiða Ásgeiri bónusinn, sem nemur um þrettán hundruð þúsund krónum, á þeim forsendum að ákveðnar skipulagsbreytingar hafi orðið til þess að Ásgeir lét af störfum hjá bankanum. Slíkt samræmdist ákvæðum um að greiða ekki út bónusgreiðslurnar að mati bankans.

Skipulagsbreytingarnar sem Kaupþing vitnar til er reyndar bankahrunið, en skilanefnd og slitastjórn tóku bankann yfir.

Í úrskurði Hæstaréttar segir:

„Krafan er samkvæmt samningnum tengd starfi sóknaraðila hjá varnaraðila með þeim hætti að hún telst endurgjald fyrir vinnu hans, enda er sérstaklega kveðið á um það í samningnum að greiðsla samkvæmt honum skuli lúta „sömu meðferð og aðrar launagreiðslur".

Er þrotabúinu því gert að setja kröfu Ásgeirs í forgang eins og aðrar launakröfur.

Ásgeir, sem er sonur Jóns Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ekki setið auðum höndum síðan skipulagsbreytingar bundu enda á störf hans hjá Kaupþingi; meðal annars skrifaði hann bókina Why Iceland? sem fjallaði um fjármálahrunið hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×