Erlent

SpaceX ætlar til Mars árið 2018

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einkarekna geimferðafyrirtækið hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að koma geimfari til Mars árið 2018.
Einkarekna geimferðafyrirtækið hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að koma geimfari til Mars árið 2018. Mynd/SpaceX
Einkarekna geimferðafyrirtækið SpaceX kynnti í dag fyrirætlanir sínar um að senda geimfar til Mars á árinu 2018. Elon Musk, stofnandi SpaceX, hefur löngum sagt að markmiðið með tilvist fyrirtækisins sé að koma mönnum til Mars og hefur hann rætt um leiðir til þess að mannkynið geti tekið sér bólfestu á Mars.

Í tísti frá SpaceX kom fram að fyrirtækið myndi senda Dragon-geimfar sitt til Mars á árinu 2018. Stefnt er að því að farið verði ómannað en tilgangur ferðarinnar er að safna upplýsingum um Mars og það sem til þarf til þess að senda mannað geimfar til plánetunnar.





Musk sjálfur tísti nánar um smáatriði um geimfarið og kom fram í máli hans að illmögulegt væri að ferja menn í geimfarinu enda væri það ekki hannað til þess. Það væri þó hannað til þess að geta lent hvar sem sem er í sólkerfinu.

Hvorki Musk né SpaceX hafa, þangað til nú, vilja negla niður einhverja ákveðna dagsetningu um hvenær stefnt væri að því að senda geimfar á Mars en Musk hafði áður rætt um að stefnt væri að slíku um miðjan næsta áratug.

Ansi margt þarf þó að ganga upp hjá SpaceX á næstu tveimur árum ætli fyrirtækið að sér að takast að uppfylla þetta metnaðarfulla markmið sitt um að komast til Mars árið 2018. Fyrirtækið hefur enn ekki prófað Falcon Heavy eldflaugina sem sem nota á til að koma geimfarinu til Mars. Þá hefur fyrirtækið einnig ekki komist að því hvernig það ætli að lenda geimfarinu heilu á höldnu á yfirborði Mars.

Fyrirtækið hefur þó áður náð að uppfylla metnaðarfull markmið sín. Fyrr í mánuðinum braut það blað í sögu geimfara þegar tókst að skjóta Falcon 9 eldflaug út í geim og lenda endurnýtanlegum hluta hennar aftur á drónaskipi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×