Handbolti

Guðmundur aflýsir tveimur æfingum | Flensburg með vesen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur fær bara eina æfingu með danska liðið fyrir leikinn gegn Þýskalandi.
Guðmundur fær bara eina æfingu með danska liðið fyrir leikinn gegn Þýskalandi. vísir/getty
Flensburg hefur sett stórt strik í undirbúning danska handboltalandsliðsins fyrir forkeppni Ólympíuleikana.

Fimm leikmenn í danska landsliðshópnum leika með Flensburg sem neitar að sleppa þeim lausum fyrir 31. mars en Danmörk leikur vináttulandsleik við Þjóðverja í Köln daginn eftir. Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Andres Eggert, Henrik Toft Hansen, Kevin Möller, Rasmus Lauge Schmidt og Lasse Svan Hansen.

Ætlunin var að danska liðið myndi koma saman 29. mars en vegna tregðu Flensburg við láta leikmennina sína lausa þarf Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, að aflýsa tveimur æfingum fyrir leikinn gegn Þýskalandi.

Danir eru að vonum ósáttur við Flensburg sem er eina þýska liðið sem neitar að gefa leikmönnum sínum frí og lét ekki vita af því fyrr en á fimmtudaginn.

„Félagið hefur vitað af þessu frá því 8. júlí í fyrra og er fyrst að tilkynna þetta núna, þegar það er búið að skipuleggja allt. Þetta er mjög undarlegt,“ segir Ulrik Wilbek, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins í fréttatilkynningu.

Danir eru í riðli með Króötum, Norðmönnum og Barein í forkeppni ÓL en riðilinn verður leikinn í Herning í Danmörku 8.-10. apríl næstkomandi. Tvö lið fara upp úr riðlinum og til Ríó.

Guðmundur er undir talsverðri pressu eftir að hafa mistekist að koma Dönum í undanúrslit á tveimur fyrstu stórmótunum undir hans stjórn. Það er því afar mikilvægt að hann komi danska liðinu inn á Ólympíuleikana eins og hann viðurkenndi í viðtali við Fréttablaðið á dögunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×