Sport

Ásdís: Lofar góðu fyrir framhaldið

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalnum skrifar
Ásdís vann sín fjórðu gullverðlaun á Smáþjóðaleikum.
Ásdís vann sín fjórðu gullverðlaun á Smáþjóðaleikum. vísir/pjetur
Ásdís Hjálmsdóttir vann nú rétt í þessu til gullverðlauna í spjótkasti á Smáþjóðaleikunum sem standa nú yfir í Laugardalnum.

Ásdís vann öruggan sigur í greininni en besta kast hennar var 58,85 metrar. Inga Stasiulionyte, frá Mónakó, lenti í 2. sæti en besta kast hennar var 46,40 metrar. María Rún Gunnlaugsdóttir lenti svo í 3. sæti en aðeins tvö köst hennar voru gild; 42,30 og 40,58 metrar.

Ásdís, sem tryggði sig nýverið inn á HM í Peking í sumar og Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári, var að vonum sátt með sigurinn en þetta voru fjórðu gullverðlaun hennar í spjótkasti á Smáþjóðaleikunum.

Leist ekkert á blikuna í upphitun

"Veistu, ég er alveg ofboðslega ánægð með daginn. Mér leist ekki á blikuna þegar kom hingað og fór að hita upp. Það var kalt og mikið rok," sagði Ásdís.

"En það rættist úr þessu og að kasta rétt tæpa 59 metra í svona aðstæðum, og spjótið fór þversum í því kasti, er mjög gott. Þetta lofar ofboðslega góðu fyrir framhaldið."

Ásdís var þó svolítið svekkt að hafa ekki náð að bæta Smáþjóðaleikametið sitt sem er 58,93 metrar. Hún setti það á leikunum á Kýpur 2009.

"Það var pínu svekkjandi að vera svona nálægt því. Markmiðið fyrir daginn var að bæta metið.

"En ég er ekkert að svekkja mig of mikið á þessu, ég var með tvö köst upp á meira en 58 metra," sagði Ásdís sem hefur ekki lokið leik á Smáþjóðaleikunum því hún keppir í kringlukasti á fimmtudaginn. En hvað tekur við hjá henni eftir leikana?

Fimm mót á fjórum vikum

"Ég fer heim til Zürich í stutt stopp og svo fer ég á Demantamótið í Osló í næstu viku. Síðan tekur við smá æfingatímabil. Þá er ég búin að taka fimm mót á fjórum vikum sem er rosalega mikið," sagði Ásdís sem fannst ekkert mál að einbeita sér að Smáþjóðaleikunum eftir að hafa tryggt sér sæti á HM og Ólympíuleikunum fyrir nokkrum dögum?

"Alls ekki, þetta var góð tímasetning því ég hafði smá tíma þarna á milli. Mér finnst frábært að koma beint heim til Íslands eftir að hafa náð lágmarkinu. Það er gott að finna stuðninginn hérna heima," sagði Ásdís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×