Innlent

Svefnmótmæli við Alþingishúsið

Hópur fólks ætlar að leggjast út við Alþingishúsið á fimmtudagskvöld og sofa þar í svefnpokum eða umvafin teppum. Með því vill hópurinn vekja stjórnvöld til lífsins um það sem í vændum sé þegar fjöldi Íslendinga missi heimili sín.

Nú skömmu fyrir hádegi höfðu 24 tilkynnt þátttöku sína í aðgerðunum, sem Steinar Immmanúel Sörensson, fimm barna faðir úr Keflavík, stendur fyrir. Nýtt þing verður sett á Alþingi fyrsta október, á föstudaginn, og því hefur hópurinn valið að leggjast út nóttina áður. Á Facebook síðu sem stofnuð hefur verið um viðburðinn segir að tímabært sé að fólk standi saman, ekki sé hægt að horfa upp á það að einstaklingar og fjölskyldur verði settar á götuna. Með þessu sé verið að senda skilaboð til stjórnvalda um að tímabært sé að bregðast við neyð fólks í landinu nú þegar þúsundir Íslendinga eigi í vændum að hafa hvergi höfði sínu að halla.

Steinar sagði í samtali við fréttastofu - að viðburðurinn væri sjónrænn gjörningur fyrir stjórnvöld til að minna á hvað gæti gerst verði ekki gripið til róttækra aðgerða. Markmiðið væri að vekja stjórnvöld til lífsins - með friðsömum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×