Fastir pennar

Heiður þeim sem heiður ber

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Draga má saman málsvörn bankamannanna sem settu Ísland á hausinn í tvær setningar: "Ég var ekki stöðvaður" og "það var ekki passað upp á mig."

Þeir eru eins og maður sem ekur á ofsahraða og drepur mann og segir svo: Þetta var lögreglunni að kenna, hún átti að stöðva mig. Jafnvel: þetta var vegagerðinni að kenna, þessir vegir eru ekki gerðir fyrir svona hraðakstur.

En þetta er þeim að kenna. Ábyrgð á glæpum liggur hjá þeim sem fremja þá. Líka hjá þeim sem hvetja til þeirra, gera þá mögulega, koma ekki í veg fyrir þá, en fyrst og fremst hjá glæpamönnunum.

Sem stendur hefur varla nokkur sætt ákæru vegna Hrunmála nema níu mótmælendur sem lentu í stimpingum við þingverði á Alþingi.

En nú á að leiða fram nýja syndahafra. Það eru þrír eða fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Haarde sem mistókst að afstýra bankahruni haustið 2008. Ekki þarf að hafa mörg orð um ábyrgð þeirra; þau brugðust of seint og illa við viðvörunum vegna trúgirni, ranghugmynda, þjóðblindu, vonleysis eða lítilþægni gagnvart auðmönnunum sem á þessum tíma stjórnuðu landinu. Kannski voru þau "bjartsýnisafglapar" eins og Sigfús Daðason orðaði það um þá íslensku hugmynd að hlutir reddist. Þetta fólk brást kjósendum sínum og sjálfu sér, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir orðaði það sjálf þegar hún kvaddi Samfylkinguna og stjórnmálin og gekkst við ábyrgð sinni á sínum tíma. Þetta fólk á ekki afturkvæmt í stjórnmál, sem er í sjálfu sér grimm refsing fyrir fólk sem notið hefur mikils trúnaðar.



Fenrisúlfur group

Vera má að ástæða sé til að draga þau fyrir Landsdóm. Og vera má að sakir fyrnist. En samt?…

Árni Mathiesen verður dreginn fyrir Landsdóm en ekki Finnur Ingólfsson. Björgvin G. Sigurðsson á að mæta fyrir dómi en ekki Valgerður Sverrisdóttir. Geir Haarde er kvaddur fyrir dóm en ekki Halldór Ásgeirsson. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skal ákærð af Alþingi en ekki Davíð Oddsson.

Davíð er núna ritstjóri Morgunblaðsins. Halldór Ásgrímsson gegnir trúnaðarstörfum í nafni þjóðarinnar erlendis. Valgerður Sverrisdóttir situr í sæmd sinni. Finnur Ingólfsson heldur milljörðunum sem hann hafði upp úr krafsinu. Þetta er fólkið sem seldi þjóðbankana.

Í einhverjum hrossakaupum við Framsókn telur Atlanefnd ekki ástæðu til að rannsaka frekar þá einkavæðingu. En þar liggja hins vegar rætur ófarnaðarins. Við einkavæðingu bankanna voru leyst úr læðingi þau öfl sem komu Íslandi á hausinn. Fyrrgreint fólk sem situr í náðum seldi fjöregg þjóðarinnar í hendur viðskiptafélögum Miðgarðsormi og Fenrisúlfi group.



Enn að störfum


Samfylkingin - Ingibjörg Sólrún og þau hin - var í þessu dæmi öllu svolítið eins og manneskja sem send er til að stöðva brjálað partí á efstu hæðinni en er boðið inn og sogast smám saman inn í fjörið, og fyrr en varir farin að dansa uppá borði og og góla með.

En ósýnilegi endurskoðendaherinn sem kvittaði upp á og orti excel-skáldskapinn er sem sagt enn að störfum. Lögfræðingarnir sem hjálpuðu við að fela slóðirnar eru enn að störfum. Viðskiptafræðingarnir sem bjuggu til svindlflétturnar eru enn að störfum. Hugmyndafræðingarnir sem gerðu peningatrú að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins eru enn að störfum. Háskólakennararnir sem framleiddu hugmyndalegu réttlætingarnar fyrir útrásinni sem eru enn að störfum. Útrásarvíkingarnir ganga lausir.

Hrunið varð ekki bara vegna þess að Geir Haarde sé svo mikill sauður. Heiður þeim sem heiður ber.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×