Viðskipti innlent

Skattahækkanir og gjöld kynda undir verðbólgubálinu

Greining Nýja Kaupþings gerir ráð fyrir að ríkið valdi 1,3% hækkun neysluverðs í upphafi næsta árs vegna hækkana á sköttum og gjöldum. Þegar spá greiningarinnar um 0,35% viðbótarhækkun verðlags á sama tíma er tekin með í reikninginn, vegna hækkana hjá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum, er niðurstaðan 1,65% hækkun vísitölu neysluverðs vegna hækkana hjá hinu opinbera í byrjun næsta árs.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að breytingar á óbeinum sköttum virðast í grófum dráttum í takti við það sem greiningin hafði áður áætlað, en þó virðist sem virðisaukaskattshækkunin verði minni en greiningin bjóst við.

Nokkur bið mun verða á því að fjármálaráðuneytið birti nákvæmari skýringar á skattabreytingunum og verður ekki hægt að segja fyrir um áhrifin með fullri vissu fyrr en það gerist. Eftirfarandi meginlínur má þó lesa úr fjárlagafrumvarpinu:

Breytingar á virðisaukaskattskerfinu hafa verið boðaðar. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar skili 8 milljörðum kr. í ríkiskassann eða um 2/3 af því sem greiningin hafði áætlað. Því gerir hún ráð fyrir að verðlagsáhrifin verði sömuleiðis 2/3 af upphaflegri áætlun okkar, en það samsvarar 0,7-0,9% hækkun verðlags.

Áfengis- og tóbaksgjald hækkar um 10% í ársbyrjun 2010. Áætlum við að áhrifin gætu orðið 0,3% til hækkunar á visitölu neysluverðs (VNV).

Bensín- og olíugjald hækkar um 10% í ársbyrjun 2010. Við gerum ráð fyrir 0,2% áhrifum til hækkunar VNV vegna þessara aðgerða.

Einnig hafa verið boðaðir skattar á orku-, umhverfis- og auðlindagjöldum, slíkir skattar myndu skila 16 milljörðum kr. tekjum til ríkissjóðs, en engin áhrif ættu að koma fram í VNV vegna þessa (að öðru óbreyttu).

Greiningin telur einnig að framundan séu gjaldskrárhækkanir á vegum sveitarfélaga og orkufyrirtækja. Hins vegar liggja þær hækkanir ekki fyrir en líklegt er að þær komi fram í upphafi árs 2010 og 2011. Heildaráhrif vegna þessa gætu numið 0,7% til hækkunar VNV eða um 0,35% á ári.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×