Innlent

Þyngri byrðar

Íslenska kjarnafjölskyldan þyrfti að greiða nærri hálfri milljóna króna meira í tekjuskatta á næsta ári - ef skattahækkun næsta árs legðist flöt á fjölskyldur landsins. Nærri hundrað milljarðar króna fara úr ríkissjóði á næsta ári til að greiða vexti. Barnabætur og vaxtabætur lækka frá þessu ári og tekjuskerðing bóta eykst.

Engum hefur dulist að fjárlagafrumvarp næsta árs yrði fáum til gleði. Við sögðum frá helstu skattahækkunum í gær. Skipting útgjalda ríkisins sést á þessu kökuriti. Félags- og tryggingamálaráðuneytið tekur langmest til sín en það sem mörgum þykir áreiðanlega mesta eftirsjáin í - eru þeir tæpu 100 milljarðar sem ríkið þarf að greiða í vexti á þessu ári, og eru um 18% af útgjöldum ríkisins.

Barna og vaxtabætur lækka. Ríkið greiðir barnafólki um 10,5 milljarða króna í barnabætur á þessu ári - en þær fara niður í 9,1 milljarð á því næsta. Lækkunin á að koma niður á tekjumeiri fjölskyldum. Vaxtabætur voru hækkaðar umtalsvert á þessu ári, upp í 10,1 milljarð - en lækka aftur á næsta ári niður í 7,7 milljarða.

Svo eru það tekjuskattar einstaklinga sem eiga að skila ríkissjóði 36,8 milljörðum meira á næsta ári en á þessu ári. Hvernig hækkuninni verður dreift á heimilin er á huldu. En til að átta okkur á tölunum, þá dreifðum við henni jafnt á allar kjarnafjölskyldur sem þá þýddi að hver fjölskylda þyrfti að greiða 477.630 krónum meira í skatta á næsta ári. Fréttastofa ítrekar að útfærslan er ekki frágengin, því má ætla að sumir munu greiða meira, aðrir minna.

Lektor í hagfræði segir frumvarpið ekki koma á óvart þótt niðurskurður og skattahækkanir séu meiri en áður hafi þekkst. Skattbyrði einstaklinga muni aukast þar sem persónuafslátturinn hækkar ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×