Lífið

Hjóla frá Ísafirði til Reykjavíkur

Tveir hjólaskátanna hvergi bangnir í Svínadal í dag.
Tveir hjólaskátanna hvergi bangnir í Svínadal í dag. Mynd/BB.is

Átta ísfirskir skátar úr Einherjum/Valkyrjunni lögðu upp í langan hjólatúr síðasta föstudag, nefnilega frá Ísafirði til Reykjavíkur. Þeir hafa í hyggju að taka þátt í skátamóti í Viðey dagana 19. til 24. júní og ákváðu að hjóla leiðina í stað þess að nýta sér hefðbundnari fararskjóta.

Jóna Benediktsdóttir hefur fylgt skátunum í dag og segir ferðina hafa gengið afar vel. Að hennar sögn hefur hópurinn þurft á smávegis hjálp að halda með viðgerðir á hjólunum á ýmsum bæjum og þorpum. Honum hafi þó allsstaðar verið tekið afar vel.

Fimm piltar úr hópnum eru á fimmtánda ári og þrjár stúlkur eru að verða nítján ára. Að sögn Jónu kviknaði hugmyndin að ferðalaginu hjá piltunum. „Strákarnir töldu ódýrara að fara hjólandi en eftir öðrum leiðum, en það reyndist auðvitað ekki vera því það er kostnaður við ferðalagið. Þannig kviknaði þó hugmyndin, hún óx og óx og varð að veruleika," segir Jóna

Hópurinn gerir ráð fyrir að koma til Reykjavíkur að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Jóna segir þó erfiðan kafla eftir, því á þjóðvegi eitt sé umferðin brjálæðisleg og ógnvekjandi fyrir krakkana að hjóla þar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×