Innlent

Vill innlenda orkugjafa

Iðnaðarráðherra tók við Athafnateygju númer eitt við setningu Alþjóðlegu athafnavikunnar í gær. Hún ætlar að rekja smiðshögg á áætlun sem leiðir til þess að bílar hér noti innlent eldsneyti.
Iðnaðarráðherra tók við Athafnateygju númer eitt við setningu Alþjóðlegu athafnavikunnar í gær. Hún ætlar að rekja smiðshögg á áætlun sem leiðir til þess að bílar hér noti innlent eldsneyti. Mynd/GVA

„Með athafnateygjunni ætla ég að reka smiðshöggið á áætlun um orkuskipti, að í stað innflutts eldsneytis verði notuð innlend framleiðsla á bílaflotann," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Hún setti Alþjóðlegu athafnavikuna í Norræna húsinu í gær og tók á sama tíma við fyrstu Athafna­teygjunni svokölluðu.

Athafnateygjurnar eru 172 talsins og hafa fyrstu handhafar þeirra nú þegar fengið þær afhentar. Í þeim hópi eru bæjarstjórar landsins, stjórnmálamenn, athafna- og fjölmiðlafólk. Þeir sem teygjuna fá þurfa að koma stórum sem smáum verkefnum í framkvæmd og láta teygjuna síðan ganga áfram til annarra. Tilgangurinn með Athafnateygjunni er að mæla hversu miklu þjóðin kemur í framkvæmd á einni viku.

Katrín segir áætlun um orkuskipti umfangsmikið verkefni. Horfa verði til margra þátta, svo sem á sviði nýsköpunar og framleiðslu innlendra orkugjafa. Þá verði að huga að aðgengi þeirra og skipuleggja skattkerfið í kringum það. Hún segist vonast til að úr málinu rætist innan tíðar.

Að smiðhögginu loknu ætlar ráðherra að afhenda Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar, teygjuna og fellur það í hans hlut að koma verkum sínum í framkvæmd.

„Það er eiginlega aðeins til að hvetja þau hjá Nýsköpunarmiðstöð áfram til góðra verka. Þau hafa lyft þvílíku grettistaki," segir Katrín og bætir við að kraftaverk hafi átt sér stað í íslenskum hátækni- og sprotageira. Bæði séu þar að verða til á fimmta hundrað störf auk þess að stefni í að velta í leikjaiðnaði einum verði tíu milljarðar króna í ár. „Þetta er stórkostlegur árangur," segir hún.

Katrín bindur miklar vonir við nýtt stjórnarfrumvarp sem felur í sér endurgreiðslu fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarvinnu auk frumvarps um fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum.

Gangi það í gegn mun Rannís votta fyrirtækin sem mögulegt verður að fjárfesta í. „Ég held að flest þeirra muni uppfylla skilyrðin," segir Katrín og bætir við að gangi frumvarpið í gegnum Alþingi sé það skref fram á við og sambærilegt við umhverfi sprotafyrirtækja í öðrum löndum. jonab@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×