Innlent

Fá tvær vikur til þess að afgreiða Icesave

Höskuldur Kári Schram skrifar

Alþingi hefur nú tvær vikur til afgreiða Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar en um næstu mánaðamót geta Hollendingar og Bretar sagt samkomulaginu upp einhliða. Formaður fjárlaganefndar vonast til þess að málið verði afgreitt úr nefnd á morgun.

Efnahags- og skattanefnd Alþingis lauk umfjöllun sinni um Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar á föstudag.

Nefndin er klofin í afstöðu sinni til málsins og ætla fulltrúar stjórnarflokkanna að skila sitt hvoru álitinu til fjárlaganefndar.

Fjárlaganefnd ætlar að funda annað kvöld en Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu í dag líklegt að nefndi klári umfjöllun sína á morgun.

Frumvarpið fer þá væntanlega í aðra umræðu á Alþingi fyrir næstu helgi. Tíminn er naumur en Bretar og Hollendingar geta sagt samkomulaginu upp einhliða um næstu mánaðmót verði Alþingi ekki búið að afgreiða málið. Óvíst er hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir íslenskt efnahagslíf.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna ætlar ekki að greiða atkvæði með frumvarpinu og þá hafa þrír aðrir þingmenn flokksins lýst yfir efasemdum með frumvarpið.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lagt mikla áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga. Verði frumvarpið hins vegar fellt á Alþingi gæti ríkisstjórnin einnig fallið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×