Viðskipti innlent

30 milljarða tap LSR: Launþegar taka á sig tvöfalt högg

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tapaði 30 milljörðum á síðasta ári. Launþegar á almennum vinnumarkaði taka á sig tvöfalt högg.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins birti uppgjör fyrir árið 2008 í dag. Þar kemur fram að eignir sjóðsins lækkuðu um þrjátíu milljarða á síðasta ári. Hrein eign til greiðslu lífeyris lækkaði úr 317 milljörðum í 287 milljarða.

Raunávöxtun sjóðsins var neikvæð um 25%. Er þessi niðurstaða í takt við tap annarra sjóða, en lífeyrissjóðir hafa orðið mjög illa úti í fjármálahruninu. Í uppgjörinu segir að hlutabréf og víkjandi skuldabréf sem LSR átti í bönkunum hafi verið afskrifuð og sjóðurinn hafi fært niður skuldabréf í eignasafni sínu vegna óvissu um stöðu margra fyrirtækja.

Starfsemi LSR skiptist í þrjár deildir: A-deild, B-deild og séreignardeild.Heildarskuldbindingar umfram eignir í A deild sjóðsins námu tæpum 47 milljörðum króna í lok árs 2008.

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra gengdi lykilstöðu í stjórn sjóðsins. Hann sagði í samtali við fréttastofu á föstudag að ráðdeild hafi verið sýnd í fjárfestingum sjóðsins, en það hafi einfaldlega verið skortur á ríkisbréfum.

Sérfræðingar sem fréttastofa ræddi við tóku upp að vissu marki undir með Ögmundi. Undanfarin ár var ríkissjóður jú rekinn hallalaus og því lítið um útgáfu ríkisbréfa. Helstu bréfin sem voru fáanleg með ríkisábyrgð voru bréf Íbúðalánasjóðs.

LSR hefur ávallt fylgt þeim fjárfestingaramma sem lög um lífeyrissjóði kveða á um. Það sem skilur sjóðinn hins vegar frá öðrum er að hann starfar undir ríkisábyrgð. Tap sjóðsins lendir því á almenningi sem tekur á sig tvöfalt högg, tapar sínum réttindum en heldur uppi réttindum sjóðfélaga LSR. Því á sama tíma og lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði skerðast halda skattgreiðendur uppi réttindum sjóðfélaga LSR..

Það hefur lengi verið álitamál hvort réttlætanlegt sé að halda úti slíku tvöföldu lífeyriskerfi, en það væri í höndum löggjafarvaldsins að breyta því fyrirkomulagi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×