Innlent

Fær engar bætur fyrir 25 milljóna króna Porsche-inn sinn

Bíllinn sem um ræðir er af sömu gerð og þessi bifreið, Porche 911 GT3RS.
Bíllinn sem um ræðir er af sömu gerð og þessi bifreið, Porche 911 GT3RS.
Tæplega fertugur eigandi Porschebifreiðar sem fór út af Grindavíkurvegi í janúar á síðasta ári fær bílinn ekki bættann samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Vátryggingarfélag Íslands var sýknað af kröfum mannsins sem vildi fá fullar bætur fyrir bílinn, sem er metinn á tæpar 25 milljónir króna. Talið er að maðurinn hafi verið að lágmarki á 170 km hraða á klukkustund þegar hann fór út af.

Bíllinn er af gerðinni Porsche 911 GT3RS og gjöreyðilagðist en hann var nánast glænýr, keyrður um 300 km. Mikil mildi þótti að ekki færi verr en ökumaðurinn slasaðist lítillega.

Fyrir dómi gaf prófessor í vélaverkfræði skýrslu en hann var fenginn til þess að reikna út áætlaðan hraða bifreiðarinnar þegar óhappið var. Hann taldi að fyrir óhappið hafi hraði bifreiðarinnar verið 184 km á klukkustund, mögulegur lágmarkshraði 170 km á klukkustund og mögulegur hármarkshraði 210 km á klukkustund.

„Prófessorinn gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti ofangreint verk sitt og útskýrði á greinargóðan hátt. Þar kom m.a. fram að hann hefur fengist við hraðaútreikninga vélknúinna ökutækja að beiðni lögreglu frá árinu 1995 og gert um 15-20 slíka útreikninga á ári hverju," segir í dómnum.

Niðurstaða héraðsdóms er sú að leggja verði skýrslu prófessorsins til grundvallar við úrlausn málsins, enda hafi ekkert komið fram í málinu sem rýri sönnunargildi hennar.

„Samkvæmt því verður slegið föstu að bifreið stefnanda hafi verið á ofsahraða, að lágmarki á 170 km á klukkustund, er hún fór út af glerhálum veginum í myrkri að vetri til. Með þessum glannaakstri sýndi stefnandi af sér stórkostlegt gáleysi og verður vátryggingaratburðurinn að öllu leyti rakinn til þess."

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×