Skoðun

Kæri Sturla

Andrés Pétursson skrifar
Það var með nokkrum áhuga sem ég las grein þína um Evrópumál á vefritinu pressan.is fyrir skömmu. Ástæðan er sú að við hjá Evrópusamtökunum fögnum allri vitrænni umræðu um þessi mál enda mikilvægt að sem flestir taki þátt henni. Það er ljóst að hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er mjög umdeild enda fylgja aðild bæði kostir og gallar.

Ég var hins vegar undrandi á þeim rökum sem þú beittir í grein þinni enda gengur margt í þeim málflutningi þvert gegn þeim niðurstöðum sem koma fram í skýrslu flokks þíns, Sjálfstæðisflokksins, í janúar síðstliðnum. Þér er til dæmis tíðrætt um að að Evrópusambandið muni taka yfir auðlindir Íslendinga. Ekki er mér ljóst hvaða auðlindir þú átt við enda skilgreinir þú það ekki sérstaklega.

Í skýrslu auðlindalindanefndar Sjálfstæðisflokksins segir orðrétt:

„Niðurstaða undirritaðra er að aðild að sambandinu muni ekki valda verulegum breytingum á málefnum er tengjast raforku, vatni, jarðvarma, olíu og gasi. Aðild að ESB hefði engin áhrif á yfirráð Íslands yfir Drekasvæðinu. Aðildin mun heldur ekki valda verulegum breytingum á regluverkinu er gildir um hálendið eða á málefni norðurheimskautsins."

Varðandi sjávarútvegsmálin segir í álitinu: „meginreglan um hlutfallslegan stöðugleika í óbreyttri mynd tryggir Íslendingum sama hlutfall heildarkvóta og nú er, m.ö.o. íslenska ríkið fengi kvótann við Íslandsstrendur til úthlutunar til þeirra sem hafa veiðireynslu. Erlendir aðilar innan ESB fengju hann ekki þar sem þeir hafa ekki veitt að neinu ráði á íslensku hafsvæði síðastliðna þrjá áratugi… Rétt er að benda á að Lissabonsáttmálinn snertir ekki eignarhald á auðlindum eða auðlindastjórnun. Ekki frekar en Rómarsáttmálinn eða aðrir grundvallarsáttmálar sambandsins." (http://www.evropunefnd.is/audlindir)

Ég spyr því, ert þú ekki sammála niðurstöðum þessarar skýrslu eða hefur þú hreinlega ekki lesið hana? Það er jú hægt að gera meiri kröfur til þín sem fyrrverandi ráðherra og alþingismanns en hins almenna borgara sem ekki hefur sömu tækifæri til að kynna sér skýrslur og gögn um þetta mál.

Það er mikilvægt að sú Evrópuumræða sem fer fram næstu misserin sé málefnaleg og byggð á staðreyndum en ekki á gróusögum eða vafasömum túlkunum á störfum og stefnu Evrópusambandsins.

Höfundur er formaður Evrópusamtakanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×