Innlent

Ekki hægt að ganga á aðrar eignir en Landsbankans

Ekki er hægt að ganga að eignum íslenska ríkisins ef stjórnvöld geta ekki staðið við Icesave skuldbindingarnar, eins og fullyrt var í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld, þar sem ríki eru ekki aðfararhæf í málum sem þessum. Þetta segir áhrifamaður innan ríkisstjórnarinnar sem þekkir Icesave samningana. Hins vegar séu eignir Landsbankans í Bretlandi og Hollandi settar að veði í samnignunum og Bretar og Hollendingar gætu því gengið að þeim ef brot yrði á ákvæðum samkomulagsins.

Fyrrgreindar heimildir fréttastofunnar herma ennfremur að algerlega sé út í hött að hægt yrði að ganga á eignir íslenska ríkisins hér á landi og inneignir, eins og hluta gjaldeyrisvaraforða sem ávaxtaður væri í Hollandi og Bretlandi. Þær eignir væru ekki aðfararhæfar. Þá væri ekkert óeðlilegt að gert væri ráð fyrir að ágreiningur um samkomulagið yrði leystur fyrir breskum dómstólum. Hvað Breta varðaði þá væru þeir heimaríki samningsins þar sem þeir væru lánveitandi, og önnur lönd kysu oft að ágreiningur þeirra færi fyrir breska dómstóla, sem væru með þeim þróuðustu varðandi ágreining í samningum milli ríkja.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar eru ákvæði um breytingar á vöxtum standi Íslendingar ekki við samkomulagið. En vextir á lánum Breta og Hollendinga með álagi eru 5,5 prósent.

Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir því við Breta og Hollendinga að Icesave samkomulagið verði gert opinbert. Bretar munu ekki vera eftirgefanlegir með þetta en geta vel sætt sig við að þingmenn fái að sjá samkomulagið, enda munu þeir greiða atkvæði um málið á Alþingi og heimildir fréttastofunnar herma að allar líkur séu á að það verði gert.


Tengdar fréttir

Hollendingar geta gengið að eignum ríkisins

Leysa skal úr úr hugsanlegum ágreiningi vegna Icesave samningsins fyrir breskum dómstólum. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV en fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur undir höndum eintak af Icesave samkomulaginu milli Íslendinga og Hollendinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×