Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra reyndi að ná í Gordon Brown forsætisráðherra Breta í kjölfar bankahrunsins á Íslandi. Hann náði hins vegar ekki sambandi við hann og talaði því við Alistair Darling fjármálaráðherra í staðinn. Þetta kom fram í máli Geirs á Alþingi í dag þar sem rætt var um viðbrögð Breta í Icesave deilunni.
Það vakti athygli á dögunum þegar Geir sagðist í viðtali í þættinum HardTalk á BBC ekki hafa talað við Gordon Brown eftir að bankarnir á Íslandi hrundu. Á þingi í dag sagði Geir að hann hafi sennilega ekki tekið nægilega skýrt til orða í viðtalinu því hann hafi vissulega reynt að ná í Brown þann 9. október. Það hafi hins vegar ekki gengið og í staðinn hafi hann rætt við Darling og talið það nægilegt úr því sem komið var.
Geir ræddi hins vegar við Brown rétt fyrir hrunið, eða þann 5. október.