Viðskipti innlent

Val um sænska leið eða suðurameríska

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skuggabankastjórnin Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur í Landsbankanum, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, bera hér saman bækur sínar í tilefni af vaxtaákvörðun Seðlabankans á morgun. Markaðurinn/Pjetur
Skuggabankastjórnin Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur í Landsbankanum, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, bera hér saman bækur sínar í tilefni af vaxtaákvörðun Seðlabankans á morgun. Markaðurinn/Pjetur
„Ég tel að ástandið í efnahagsmálun nú sé hættulegra en nokkru sinni á lýðveldistímanum. Ákvarðanir á næstu dögum og vikum geta ráðið því hvort við verðum áfram meðal þeirra þjóða í heiminum sem njóta bestra lífskjara," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Hann á sæti í skuggabankastjórn Markaðarins, en hún kom saman í tilefni af því að Seðlabanki Íslands á samkvæmt dagskrá að ákveða stýrivexti á morgun.

Skuggabankastjórnin telur ekki svigrúm til vaxtabreytinga nú, þær verði að gera í tengslum við endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og afnám gjaldeyrishafta. Hér standi þjóðin hins vegar frammi fyrir vali um hvort hér eigi að markaðsbúskapur eða ekki.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir bankakreppur yfirleitt ganga hratt yfir ef rétt er á þeim tekið. „Hættan við þær er einkum sú að tekin verði upp röng efnahagsstefna í kjölfar þeirra. Svíþjóð varð miklu sterkara ríki eftir að hafa gengið í gegnum bankakreppu, en í Suður-Ameríku hafa lönd leiðst út í höft og pólitískan óstöðugleika í kjölfar bankakreppa. Valið stendur um suður-amerísku eða sænsku leiðina," segir hann.

Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir óljósa stefnumörkun í gjaldeyris- og peningamálum, upplausn á vettvangi stjórnmálanna og „algjört vantraust innanlands og utan á mikilvægum stofnunum" spilla möguleikum á að aflétta hér gjaldeyrishöftum. „Furðu gegnir að stjórnvöld hafi ekki eytt snjóhengju krónubréfa sem skapar hættu á frekara falli krónu verði viðskipti með gjaldeyri gefin frjáls. Samt væru viðsemjendur í þessu efni ekki nema örfáir erlendir aðilar, innan við tíu talsins," segir hann og telur að horfast þurfi í augu við að ekki sé víst að nokkurn tímann skapist skilyrði til að taka að nýju upp eðlileg gjaldeyrisviðskipti með krónuna. Þeim mun brýnna segir hann að undirbúa hér upptöku evru með fullri aðild að evrópska myntbandalaginu.

Þá segir Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, að stjórnvöldum hafi ekki tekist nógu vel upp við að fylgja eftir sinni eigin efnahagsstefnu sem sett var fram í tengslum við aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nóvember. „Það er því ekki lengur bara miðlunarferli peningastefnunnar sem er stíflað, heldur miðlunarferli efnahagsstefnunnar í heild. Stífluna verður að losa tafarlaust með því að skipta um yfirstjórn í Seðlabanka og ráðuneytum. Það er hvorki tími né ástæða til að bíða eftir nefndaráliti um slíkar mannabreytingar, enda eru þær jafnframt forsenda þess að endurvinna traust á Íslandi bæði innanlands og utan."

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×