Erlent

Tæknivæddur fornleifauppgröftur

Fornleifafræðingar hafa tekið stökk inn í framtíðina og nota nú rafmagns- og örbylgjusenda til að grennslast fyrir um lifnaðarhætti landnámsmanna í Skagafirði.

Fornleifafræðingar víðs vegar að úr heiminum hafa gert jarðeðlifræðilegar rannsóknir í Skagafirði frá árinu 2001. Markmiðið er að finna og aldursgreina mannvistir á svæðinu allt aftur til landnámsins.

Þeir notast við meira en hefðbundin verkfæri við rannsóknirnar, meðal annars rafmagns- og örbylgjusenda. Þótt fæstir sjái nokkuð út úr þeim upplýsingum sem þeir skila er aðra sögu að segja af fornleifafræðingunum.

Árið 2001 kom hópurinn niður á langhús frá tíundu öld við Glaumbæ og ári síðar fundu þeir merki um byggð við Stóru-Seylu en á það stórbýli er minnst í Sturlungu. Veður og vindar höfðu á 900 árum afmáð öll ummerki um að nokkru sinni hefði verið mannabústaður þarna á jörðinni en hafist var handa við að uppgröft samkvæmt útreikningum sendanna.

Meðal þess sem sú vinna hefur skilað er forlátur koparpeningur, ekki stór í sniðum, en það var fimm daga vinna að hreinsa hann svo vel væri. Hann minnir á margt á mynt sem slegin var í Danmörku í kringum 1040.

Það sem vekur undrun, og jafnvel örbylgjusendar geta ekki svarað, er af hverju peningurinn sem fannst við Stóru-Seylu er úr kopar þegar danska myntin var slegin úr silfri.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×