Innlent

Rússar í hringferð um landið

Rússnesku sprengjuflugvélarnar sem flugu inn í íslenskt flugumsjónarsvæði í gær flugu inn í eftirlitssvæðið norð austur af Íslandi, fyrst í vesturátt og beygðu svo til suðurs milli Íslands og Grænlands og fóru hringferð um landið.

Í allt áttu sér stað þrjár mismunandi ferðir rússneskra sprengjuflugvéla um loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins sem Ísland tilheyrir. Í tveimur tilfellum var farið beint í suður, austan af landinu, en í því þriðja komu flugvélarnar inn í eftirlitssvæðið norðaustur af Íslandi og flugu eins og fyrr greinir hringferð um landið.

Samkvæmt fréttatilkynningu sem Utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér vegna málsins segir að fylgst hafi verið með fluginu allan tímann af Ratstjárstofnun og upplýsingum miðlað til viðeigandi stofnanna innanlands, ásamt því að skipst var á upplýsingum við viðeigandi herstjórnir innan Atlantshafsbandalagsins.

Viðbrögð við fluginu hafi verið samhæfð á milli þriggja bandalagsríkja, Íslands, Noregs og Bretlands. Breskar og norskar orrustuþotur mættu sprengjuflugvélunum og fylgdu þeim hluta leiðarinnar.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa mótmælt fluginu og segja æfinga- og eftirlitsflug á borð við þetta skapa hættu fyrir almenna flugumferð og þjóna engum hagnýtum tilgangi. Enn meiri hætta skapist síðan þegar NATO-ríkin senda herþotur sínar til móts við rússnesku þoturnar og fylgja þeim eftir í fluginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×