Innlent

Rætt við sendiherra Rússa

Vladímír Pútín, Rússlandsforseti
Vladímír Pútín, Rússlandsforseti

Rússneskar sprengjuflugvélar flugu þrisvar sinnum inn á loftvarnarsvæði Íslands við austurströnd landsins aðfararnótt föstudagins og í gærmorgun. Gera má ráð fyrir að sprengjuvélarnar hafi verið sex talsins því í hverju flugi eru yfirleitt tvær vélar.

„Sprengjuflugvélarnar flugu í hálfhring framhjá landinu og var fylgst með þeim á ratsjám," segir Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Hún segir að eftirlitið með sprengjuvélunum hafi verið skólabókardæmi um hvernig íslenska loftvarnarkerfið virki. Kristrún segir að ekki sé hægt að svara því að svo stöddu hvort vélarnar hafi farið inn í lofthelgi Íslands.

Mikil samskipti voru á milli stjórnstöðva Atlantshafsbandalagsins í Noregi, Bretlandi og Íslandi meðan á flugi sprengjuvélanna stóð. Breskar og norskar orrustuþotur flugu í veg fyrir rússnesku sprengjuvélarnar og fylgdu þeim eftir þar til þær flugu út af loftvarnarsvæði Atlantshafsbandalagsins.

Kristrún segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra muni fá skýrslu um málið og líklega bregðast við því í dag.

Kristrún segir að rætt verði við sendiherra Rússlands á Íslandi vegna málsins.

Flug rússnesku sprengjuvélanna inn á loftvarnarsvæði Íslands var liður í efirlitsferðum sem rússneski flugherinn mun fara í reglulega hér eftir til ýmissa svæða í heiminum. Vladímír Pútín Rússlandsforseti greindi frá því í gær að Rússar ætluðu að hefja eftirlitsferðirnar á ný en þeir hættu þeim eftir að kalda stríðinu lauk. Pútín segir að aðrar þjóðir hafi ekki hætt þeim og að það ógni öryggi Rússlands.

Forsetinn sagði einnig frá því að fjórtán rússneskar sprengjuflugvélar hefðu farið í slíkar eftirlitsferðir í gær yfir Atlants-, Kyrra- og Norður-Íshafið. Reikna má með að rússnesku sprengjuvélarnar sem flugu framhjá Íslandi hafi verið að taka þátt í þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×