Viðskipti innlent

Arion endurgreiðir vegna ólögmæts gengisláns

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einar Hugi Bjarnason, hjá ERGO lögmönnum, er lögmaður Sjómannafélags Íslands.
Einar Hugi Bjarnason, hjá ERGO lögmönnum, er lögmaður Sjómannafélags Íslands.
Arion banki var í gær dæmdur til að greiða Sjómannafélagi Íslands tæpar sex milljónir króna vegna ólögmæts gengistryggðs fasteignaláns. Orlofssjóður Sjómannafélag Íslands keypti íbúð í Reykjavík og tók lán hjá Kaupþingi banka til að fjármagna kaupin. Veðskuldabréf var gefið út 17. júlí 2007, en lánið hljóðaði upp á 15 milljónir króna til tuttugu ára. Lánið var greitt upp hraðar en gert var ráð fyrir, eða á tæpum þremur árum, og námu þá raungreiðslur til bankans tæpum 37 milljónum.

Eftir gengisdóm Hæstaréttar um bílalán frá því í sumar hélt Sjómannafélagið því fram að gengistrygging fasteignalána væri ólögmæt og félagið hefði greitt um 20 milljónum of mikið af láninu miðað við samningsvexti. „Ég tel að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við varðandi lán sem veitt voru til fasteignakaupa eins og þegar lán voru veitt til kaupa á bifreiðum. Í þessum svokölluðu gengisdómum Hæstaréttar þá var niðurstaðan ekki fengin með tilvísun til þess hvort umrætt lán var veitt til þess að kaupa bíl eða fasteign," sagði Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Sjómannafélagsins, við fréttastofu þegar stefnan var þingfest.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að féð hafi verið lánað í íslenskum krónum, en að viðskiptin hafi verið færð í þann búning að þau færu fram í erlendum gjaldmiðlum. Með þessu hafi lánsféð verið verðtryggt miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, sem sé óheimilt samkvæmt 14. grein vaxtalaga. Segir Héraðsdómur að verðtrygging skuldabréfs hans hafi verið ólögmæt og óskuldbindandi. Skipti engu í því sambandi þó talið yrði að stefnandi hafi sjálfur valið þessi samningskjör. Telur dómurinn augljóst að heimila verði endurkröfu stefnanda.

Héraðsdómur segir hins vegar að Arion banki hafi sýnt nægilega fram á það að hann hafi fyrst eignast kröfuna á hendur Sjómannafélaginu í janúar 2010, en áður átti Kaupþing banki kröfuna. Arion banki hafi fram að þeim tíma tekið við afborgunum af skuldabréfinu í umboði Kaupþings banka. Arion banki verði því einungis krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann tók við eftir að hann eignaðist kröfuna. Var Arion banki því dæmdur til að greiða stefnanda 5,9 milljónir króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×