Viðskipti innlent

Allt að 180 prósenta verðmunur á dekkjaskiptum

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/pjetur
Allt að níu þúsund króna verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 27 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þann 27. október síðastliðin.

N1 var oftast með hæsta verðið á þjónustunni en Titancar í Kópavogi var alltaf með lægsta verðið.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa með 18 tommu álfelgu sem var ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 14.010 kr. hjá N1 og er verðmunurinn 9.010 kr. eða 180%.

Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.685 kr. hjá Höldur dekkjaverkstæði Akureyri. Verðmunurinn var 7.685 kr. eða 154%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir meðalbíl á 16 tommu stálfelgum en hún var ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.420 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.420 kr. eða 48%.

Fyrir bíl á álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.614 kr. hjá N1. Verðmunurinn var 3.614 kr. eða 72%.

12 hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra

Af þeim hjólbarðaverkstæðum sem borin eru saman á milli ára hafa 13 þeirra ekki hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl með 15 tommu álfelgu frá því í október 2013.

Mesta hækkunin var hjá Dekkjahúsinu um 10% og þar á eftir kom hækkun hjá Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns um 8%, hjá N1 um 7%, hjá VIP dekk um 6%, hjá Gúmmívinnustofa SP dekk um 5% og hjá Hjólbarða og smurþjónustunni Klöpp og Bernard um 1%.

Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá Dekkverk um 500 kr. milli ára sem er lækkun upp á 9%.

Sjá má nánari niðurstöður í töflunni hér að neðan.

mynd/así





Fleiri fréttir

Sjá meira


×