Erlent

Allir viðstaddir grétu

Birta Björnsdóttir skrifar
Það var tilfinningaþrungin stund þegar liðsmenn hljóm­sveit­ar­inn­ar Eag­les of De­ath Metal stigu á svið í París í gærkvöld. Meðal viðstaddra voru eftirlifendur úr árásinni á tónleikastaðinn Bataclan í nóvember í fyrra.

Söngvari sveitarinnar, Jesse Hughes, lýsti því yfir fyrir tónleikana að hann óttaðist mest að brotna þar saman. Hann stóð þó sína plikt ásamt félögum sínum þó hann hafi oft verið klökkur.

Fyrsta lagið var langt komið þegar Hughes og félagar snarþögnuðu og báðu viðstadda um hljóð í 89 sekúntur, til minningar um þá 89 tónleikagesti sem létu lífið í skotárásinn í nóvember, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Allir eftirlifendur árásarinnar fengu boð á tónleikana, boð sem mörg þeirra þáðu.

„Tónleikarnir voru fullkomnir. Ég var á staðnum þann 13. nóvember svo mér fannst þetta mjög erfitt fyrst,” sagði tónleikagesturinn Julian. „Ég held að allir viðstaddir hafi grátið aðeins, mér sýndist það útundan mér. En þetta var mjög falleg stund.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×