Erlent

Ákærð fyrir þátttöku í morði á fréttamönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Nadezhda Savchenko er í haldi Rússa eftir að hún var handsömuð af aðskilnaðarsinnum í Úkraínu.
Nadezhda Savchenko er í haldi Rússa eftir að hún var handsömuð af aðskilnaðarsinnum í Úkraínu. Vísir/AP
Úkraínskur flugmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa átt hlut að morði tveggja rússneskra fréttamanna. Nadezhda Savchenko, flýgur þyrlum fyrir úkraínska flugherinn, en hún var handsömuð af aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu.

Hún var í fríi frá hernum og hafði gengið til liðs við sjálfboðaliða sem berjast gegn aðskilnaðarsinnum.

Ekki er ljóst hvernig hún komst í hendur Rússa. Þeir segja hana sjálfa hafa farið yfir landamærin án nokkurra skjala og sagst vera flóttamaður.

Talsmaður Utanríkisráðuneytis Úkraínu segir að hún hafi verið í haldi aðskilnaðarsinna. Hann segir sögu Rússa, um að henni hafi verið sleppt úr haldi og hafi sjálf farið til Rússlands, fáránlega.

Igor Kornelyuk og Anton Voloshin, starfsmenn ríkisreknar sjónvarpsstöðvar í Rússlandi létust eftir að þeir urðu fyrir skoti úr sprengivörpu í borginni Luhansk í júní.

AP fréttaveitan segir Rússa halda því fram að Savchenko hafi látið þá hermenn sem skutu úr sprengivörpunni vita hvar fréttamennirnir væru. Því væri hún meðsek.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×