Viðskipti innlent

Áhöld um umboðssvik en bankaráð mun ekki aðhafast frekar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bankaráð Seðlabanka Íslands mun ekki aðhafast frekar í máli Láru Valgerðar Júlíusdóttur fyrrverandi formanns bankaráðsins og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra eftir að Már hefur endurgreitt málskostnað sem Seðlabankinn bar í máli hans gegn bankanum. Einn bankaráðsmaður telur eðlilegt að málið verði rannsakað frekar þótt viðkomandi hafi ekki sett fram þá skoðun á vettvangi ráðsins.

Meiri­hluti bankaráðs Seðlabanka Íslands ákvað á miðvikudag að hafna greiðslu málskostnaðar Más Guðmunds­son­ar vegna máls sem hann höfðaði gegn bankanum. Lára Valgerður Júlíusdóttir fyrrverandi formaður bankaráðsins hafði áður tekið ákvörðun um að bankinn greiddi þennan kostnað. Bankaráðið mun því ekki samþykkja að gera máls­kostnaðinn að rekstr­ar­kostnaði bank­ans.

Bankaráðið gerði í raun ekki kröfu um aðseðlabankastjóri endurgreiddi fjárhæðina. Hins vegar sagði Már Guðmundsson sjálfur í bréfi sem hann sendi bankaráðinu 11. júlí að hann myndi sjálfur endurgreiða kostnaðinn ef bankaráðið myndi ekki samþykkja reikningana. Már tapaði málinu á báðum dómstigum en málskostnaður hans er sagður á fjórðu milljón króna. 

Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar frá júní sl. við erindi bankaráðsins vegna málsins kom fram að formaður bankaráðsins hefði ekki sjálfstæðar valdheimildir til að skuldbinda bankann. Lára Valgerður hefði því þurft að bera þessa ákvörðun um greiðslu málskostnaðarins undir bankaráðið til samþykktar, en orðrétt segir í bréfi Ríkisendurskoðunar:

„Gerðarbók ráðsins ber ekki með sér að ákvörðun um greiðslu málskostnaðar bankastjórans hafi verið borin upp til samþykktar í ráðinu eins og gert er ráð fyrir í 27. gr. laganna (um Seðlabankann).“


og

„hefði að mati Ríkisendurskoðunar átt að bera ákvörðun um greiðslu þeirra upp til samþykktar í bankaráðinu.“

Umboðssvik Láru eða þeirra beggja? 

Vangaveltur hafa verið um hvort ákvörðun um útgjöld vegna málskostnaðarins gæti mögulega fallið undir umboðssvik. Einn bankaráðsmaður sem fréttastofa hefur rætt við segist vera þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að rannsaka ákvörðun um greiðslu málskostnaðarins sem möguleg umboðssvik. 

Til að hægt sé að sakfella fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt, eins og ákvæðið hefur verið skýrt í dómaframkvæmd. 

1. Ákærði þarf að hafa aðstöðu á hendi þannig að annar maður eða lögaðili verði bundinn við ráðstöfun hans. 

2. Ákærði þarf að fara út fyrir þessa aðstöðu eða umboð. 

3. Með þeirri háttsemi þarf að skapast veruleg fjártjónshætta fyrir þann sem er bundinn af henni.

Eins og um önnur brot sem falla undir auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga þarf brotið að vera framið í auðgunarskyni og ásetningur þarf að vera til staðar um fjárhagslegan ávinning. 

Fór út fyrir heimildir sínar sem formaður bankaráðsins

Fyrir liggur í málinu að fyrrverandi formaður bankaráðsins fór út fyrir umboð sitt þegar hún samþykkti greiðslu reikninganna og fjártjónið var til staðar. Það stendur efnislega í bréfi Ríkisendurskoðunar til bankaráðsins.

Hins vegar hefur formaðurinn fyrrverandi ítrekað lýst því yfir að hún hafi gert þetta í góðri trú. Til dæmis segir um huglægar ástæður hennar í bréfi Ríkisendurskoðunar: „leit fyrrverandi formaður bankaráðsins svo á að þar sem hann hefði með vitneskju bæði bankaráðsins og yfirstjórnar bankans farið með forsvar fyrir hönd Seðlabankans í máli seðlabankastjóra gegn honum hefði hann jafnframt fullnægjandi heimild til að samþykkja umrædda reikninga.“

Eftir á kom svo á daginn að þetta mat Láru Valgerðar Júlíusdóttur var rangt, eins og rakið er í bréfi Ríkisendurskoðunar. 

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari sagði í samtali við Stöð 2 að embættinu hefði ekki borist kæra vegna hugsanlegra umboðssvika í málinu. Hann sagði að embættið gæti að eigin frumkvæði hafið rannsókn án undangenginnar kæru en svaraði ekki hvort slík rannsókn yrði hafin.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 hefur ekki komið til umræðu á fundum bankaráðs Seðlabankans að kæra Láru eða Má sjálfan vegna umboðssvika. Málinu er lokið af hálfu bankaráðsins og mun ráðið ekki hlutast til um að því verði vísað til sérstaks saksóknara.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×