Innlent

Afstaða Íslands gefur tilefni til naflaskoðunar innan ESB

Þorgils Jónsson skrifar
Tregða Íslands er sögð bregða óhagstæðu ljósi á ESB.
Tregða Íslands er sögð bregða óhagstæðu ljósi á ESB. Mynd/ESB
Efasemdir Íslands um ESB-aðild og ákvörðun um að gera hlé á aðildarviðræðunum varpar slæmu ljósi á sambandið og ætti að vera ástæða til naflaskoðunar. Þetta sögðu nokkrir Evrópuþingmenn þegar framvinduskýrslan um aðildarviðræðurnar var rædd í Strassborg á miðvikudag.

Stefan Füle stækkunarstjóri kynnti skýrsluna og stöðu viðræðnanna og sagði að ferlinu væri ekki lokið frá sjónarhorni ESB.

Í umræðum var viðhorf þingmanna til aðildar Íslands almennt jákvætt. Írinn Pat the Cope Gallagher, sem hefur farið fremstur í flokki þeirra sem gagnrýna framferði Íslands í makríldeilunni, sagðist gjarna vilja sjá Ísland í hópi aðildarríkja og hvatti alla aðila til þess að ná samningum sem fyrst, til að binda enda á þessa „langvinnu og óþörfu“ deilu.

Eistinn Indrek Tarand talaði fyrir Græningja og sagði að sú staðreynd að Íslendingar væru hikandi í afstöðu sinni til aðildar segði ekki minna um ESB en Ísland.

„Hvað erum við orðin ef lítið land með framúrskarandi lýðræðisskipulag, en gjaldeyrishöft, vill ekki ganga í ESB. Ættum við ekki að líta í spegilinn og meta hvernig okkur líst á það sem við sjáum.“

Þingkona frá Finnlandi og þingmaður frá Króatíu sögðu meðal annars að staðan græfi undan trú á ESB og stækkunarferlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×