Viðskipti innlent

Afnám hafta gæti hafist árið 2017

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði, að hann hefði væntingar um að stórir áfangar yrðu stignir við afnám gjaldeyrishafta á þessu ári.

Annað virðist blasa við í skýrslu Alþjóðagjaldeyrssjóðsins sem birt var nýverið. Þar kemur fram að skilyrði þess að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft sé fækkun aflandskróna, aðgangur að erlendu lánsfjármagni, að opinber fjármál séu í jafnvægi og fjármálakerfið sterkt. Miðað við núverandi aðstæður, sé áætlað að afnám gjaldeyrishafta geti hafist árið 2017.

„Nei, ég tel að það sé allt of hæg áætlun. Þeir tala um að hleypa þurfi út öllum aflandskrónueigndum áður en við hefjum almennt afnám hafta á aðra aðila. Ég tel að það gæti ekki jafnræðis á milli innlendra og erlendra aðila,“ segir Björn Brynjúlfur Björnssson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft þurfi að uppfylla fjögur skilyrði. Björn telur raunar að tvö þessara skilyrða séu nú þegar uppfyllt. Mesta óvissan sé varðandi fjórða skilyrðið – íslenskum bönkum hafi gengið illa að fjármagna sig á erlendum mörkuðum, sem geri þá óstöðugri ef til afnáms hafta kæmi.

„Þar erum við kannski fyrst og fremst að tala um stöðu Landsbankans, nýja gagnvart þeim gamla. Þar er stór skuld sem ekki er búið að lengja í og nýji Landsbankinn telur sig eiga í vandræðum með að greiða í núverandi mynd,“ segir Björn.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gengið út frá því að þrotabú föllnu bankanna geti greitt út gjaldeyriseignir sínar til kröfuhafa frá árinu 2015. Aðrir aðilar í hagkerfinu þurfi hins vegar að bíða til ársins 2017.

„Þarna væri verið að mismuna aðilum innan hafta. Þrotabú gömlu bankanna eru innlendir aðilar og þau þurfa að lúta höftum eins og aðrir. Ef að stjórnvöld ákveða að hleypa þeim út á undan öðrum þá er í því falið mismunun sem íslensk fyrirtæki, lífeyrissjóðir og einstaklingar kæmu til með að tapa á,“ segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×