Innlent

Aðskilnaður trúfélaga og skóla ræddur í Hafnarfirði

Valur Grettisson skrifar
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður fræðsluráðs í Hafnarfirði.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður fræðsluráðs í Hafnarfirði.

Lögð var fram tillaga um aðskilnað trúfélaga frá skólastarfsemi hjá fræðsluráði Hafnarfjarðar í dag. Samkvæmt formanni ráðsins, Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur, oddvita Vinstri grænna, þá er tillagan eingöngu til umræðu.

„Þetta var lagt fram og verður svo lagt undir skólasamfélagið auk þess sem það þarf að finna út hvernig þetta gengur fyrir sig innan skólanna í dag," segir Guðrún en ábendingin barst til ráðsins í gegnum íbúagáttina, það er að segja, íbúi sendi tillöguna inn með tölvupósti.

„Tillagan kemur í kjölfar tilfinningaróts í Reykjavík," segir Guðrún en meirihluti mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar hefur lagt fram tillögu þar sem lagt er til aðskilnað trúfélaga og skóla. Umræðan um tillögurnar hefur verið hörð enda tillögurnar vægast sagt umdeildar.

Guðrún segir málið alls ekki komið í farveg í Hafnarfirði með öðrum hætti en að það sé til umræðu. Það væri þá ekki fyrr en á næsta fundi fræðsluráðs sem ákvörðun um framhald tillögunnar verður tekin.

Aðspurð hvort það hafi verið kvartað undan trúfélögum í skólum í Hafnarfirði svarar Guðrún því til að engar formlegar kvartanir hafi borist.

„Þetta er bara tekið fyrir í rólegheitum, enda er ég ekki fylgjandi neinni sprengjuumræðu," segir Guðrún að lokum.

Næsti fundur fræðsluráðs verður haldinn eftir hálfan mánuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×