Erlent

30 menn taldir af í námu í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn námunnar hreinsa svæðið við námuna.
Starfsmenn námunnar hreinsa svæðið við námuna. Vísir/EPA
Talið er 30 menn hafi látið lífið í gassprengingu í Zasyadko námunni í Úkraínu. Náman er nærri Donetsk á svæði sem er í haldi aðskilnaðarsinna. Staðfest er að einn sé látinn og fjórtán slösuðust, en fyrir átta árum létust 101 í slysi í námunni.

Kvíðafullir ættingjar starfsmanna námunnar hafa safnast saman á svæðinu. Samkvæmt fréttamanni BBC óttast þeir að aðskilnaðarsinnar hafi ekki burði til að bregðast við slysinu og að koma mönnum til bjargar sem hugsanlega eru fastir í námunni.

Forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, hefur farið fram á að björgunarsveitarmönnum á vegum stjórnvalda og lögreglu verði hleypt á svæðið.

Sprengingin varð í nótt á íslenskum tíma. Það er vitað að 230 menn voru í námunni þegar sprengingin varð og búið er að gera grein fyrir 200 þeirra.

Einn starfsmaður námunnar sem BBC ræddi við, segir að hann hafi starfað í námunni í 23 ár og að á þeim tíma hafi orðið fjórar sprengingar. „Þeir þurfa að ná þeim upp strax. Annars munu þeir eingöngu sækja lík. Sprengingar eru hræðilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×