Erlent

30 ára fangelsi fyrir að misnota konur sínar og dætur

Atli Ísleifsson skrifar
Goel Ratzon var handtekinn í umfangsmikilli lögregluaðgerð árið 2010.
Goel Ratzon var handtekinn í umfangsmikilli lögregluaðgerð árið 2010. Vísir/AFP
Goel Ratzon, leiðtogi ísraelsks sértrúarsafnaðar, hefur verið dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að hafa misnotað konur sínar og dætur kynferðislega um margra ára skeið.

Hinn 64 ára Ratzon var sakfelldur fyrir fjölda kynferðisbrota, þar á meðal nauðgun og sifjaspell.

Að sögn ísraelskra fjölmiðla átti Gatzon 21 „eiginkonu“ og átti með þeim þrjátíu börn.

Ratzon hafnaði öllum ákæruliðum og sagði konurnar hafa búið með honum af fúsum og frjálsum vilja.

Ratzon var handtekinn í umfangsmikilli lögregluaðgerð árið 2010 þar sem í ljós kom að Ratzon hélt fjölda heimila í Tel Aviv þar sem konurnar og börnin bjuggu „við skelfilegar aðstæður“.

Konurnar höfðu allar neyðst til að slíta öll tengsl við fjölskyldur sínar og vini eftir að þær „gengu að eiga“ Ratzon, auk þess að hann hafði haft af þeim fé.

Í frétt BBC kemur fram að Ratzon hafi hótað konunum og börnunum líkamsmeiðingum færu þau ekki að fyrirmælum hans Þá hafi hann neytt konurnar til að húðflúra nafn Ratzon og stundum andlitsmynd á líkamann sinn.

Börnin höfðu öll verið nefnd mismunandi útgáfur af nafni Goel Ratzon sjálfum, en nafn hans þýðir „frelsari“ á hebresku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×