Viðskipti innlent

232 milljóna hagnaður Já árið 2014

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Já-appið.
Já-appið. mynd/já
Já hf. hagnaðist um 232 milljónir króna árið 2014. Rekstrartekjur félagsins námu 1.025 milljónum króna og rekstrargjöld voru 750 milljónir króna. Hjá félaginu störfuðu alls 80 starfsmenn í árslok 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já.

Hagnaður Já hf. dróst saman á milli ára, en á árinu 2013 nam hann 311 milljónum króna, sem var besta rekstrarárið í sögu félagsins. Rekstrartekjur Já árið 2014 drógust saman um 90 milljónir króna samanborið við árið á undan, en rekstrargjöld drógust jafnframt saman um 55 milljónir króna.

„Afkoma félagsins er góð og í samræmi við áætlanir félagsins. Við erum bjartsýn á framtíðina og vinnum markvisst að því að efla þjónustu og lausnir Já“, segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.

Já hf. var stofnað fyrir 10 árum síðan utan um rekstur upplýsingaþjónustu. Undanfarin ár hefur félagið lagt mikla áherslu á þróun stafrænna upplýsingalausna til að mæta þörfum notenda. Já hf. hefur auk þess fjárfest í öðrum upplýsingafélögum til þess að útvíkka starfsemina og fjölga tekjustoðum félagsins, en fyrr á þessu ári keypti félagið allt hlutafé í Gallup.

Já hf. er í meirihlutaeigu Auðar I, fagfjárfestasjóðs sem er í eigu margra stærstu lífeyrissjóða landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×