Erlent

11 ára mátti ekki vera klæddur sem Christian Grey

Samúel Karl Ólason skrifar
Liam Scholes og Jamie Dornan leikari.
Liam Scholes og Jamie Dornan leikari. Mynd/Twitter/getty
Hinn ellefu ára gamli Liam Scholes fékk ekki að vera á bekkjarmynd í skóla sínum í Bretlandi, þar sem allir krakkarnir voru klæddir sem karakterar úr bókum. Búningur hans var sagður óviðeigandi. Liam var klæddur í jakkaföt, skyrtu og með bindi og sagðist vera Christian Grey úr Fifty Shades of Grey bókunum.

Honum var einnig bannað að taka þátt í öðrum fagnaðarlátum skólans vegna World book day, eða alþjóðlega bókadagsins.

Móðir Liam vakti athygli á ákvörðun skólans á Twitter í gær. Þar sagði Nicola Scoles að kennarinn hefði verið klæddur sem raðmorðinginn Dexter og aðrir krakkar hefðu verið með byssur.

Liam hefur hvorki lesið bækurnar né séð kvikmyndina.

Liam var einnig með knippi og grímu í vösum sínum.

„Ég fékk símtal frá skólanum og mér var tilkynnt að búningur hans væri óviðeigandi og að hann hefði ekki fengið að vera með í myndatökunni,“ segir Nicola við Telegraph. Hún sagði að hún og kennarinn hefðu verið sammála um að vera ósammála og að hún ætlaði ekki lengra með málið. Nicola var þó verulega ósátt.

Liam segist sjálfur hafa ákveðið að fara sem Christian Grey og að það hefði verið ómögulegt að taka ekki eftir karakternum í allri umfjölluninni sem kvikmyndin Fifty Shades of Grey hefur fengið á undanförnum mánuðum.

„Ég held að samhengi bókarinnar gæti valdið því að fólki þætti þetta óviðeigandi. Ég fór hins vegar sem Christian Grey af því að mér fannst það skemmtilegt og það liggur ekkert meira á bakvið það.“

Kennari Liam segir Telegraph að skólinn standi við ákvörðun sína. Hann var beðinn um að breyta búningi sínum í James Bond og kennarinn segir að eftir það hafi hann fengið að taka þátt í deginum.

Móðir Liam benti þó á í viðtali við BBC í dag að James Bond væri þekktur flagari og hann hefði drepið fjölda manns.

„Ég veit ekki hvor er verri,“ sagði Nicola Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×